lau 14. nóvember 2020 19:30
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: RÚV 
Guðni Bergs: Höfum þegar fengið fram nöfn mögulegra þjálfara
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik Hamrén er búinn að segja af sér sem landsliðsþjálfari íslenska landsliðsins og segir Guðni Bergsson ákvörðunina hafa komið stjórn KSÍ nokkuð á óvart.

RÚV náði tali af Guðna og spurði hann út í framhaldið fyrir landsliðið. Guðni segir að stjórn KSÍ sé þegar byrjuð að hugsa til mögulegra arftaka og að þjálfarastaðan verði ekki auglýst. Það bendir til þess að mikill áhugi sé á starfinu og tekur Guðni fram að það séu nokkur nöfn sem komi nú þegar til greina þó Hamrén sé aðeins nýbúinn að segja af sér.

„Við virðum þessa ákvörðun og þökkum honum kærlega fyrir vel unnin störf. Við erum að sjálfsögðu byrjuð að hugsa um framtíðina og munum fara vel yfir stöðuna á næstu dögum og vikum. Við þurfum að fara vel yfir málin innan okkar raða og ráða svo nýjan þjálfara, hvort sem hann sé íslenskur eða erlendur," sagði Guðni við RÚV.

„Við munum líklega ekki auglýsa starfið. Þó heimurinn sé stór þá er þessi faglegi heimur í fótboltanum lítill. Ég held að allir sem þurfa að vita af þessu muni frétta af því og sækja um. Við munum fá fram nöfn og höfum þegar fengið fram nöfn mögulegra þjálfara."

Guðni segir að stefnt sé að ganga frá ráðningu á nýjum þjálfara fyrir áramót.
Athugasemdir
banner
banner
banner