Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 15. febrúar 2021 10:21
Fótbolti.net
„Lars er ekki kominn sem postulínsdúkka"
Icelandair
Lars Lagerback snýr aftur!
Lars Lagerback snýr aftur!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson.
Arnar Þór Viðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við erum mjög ánægðir með að hafa fengið Lars með okkur í þetta. Frá byrjun var mikill áhugi frá okkur að fá þau gæði og þá reynslu sem Lars er með til að hjálpa okkur," segir Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.

Arnar var á línunni í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 á laugardaginn.

Þar ræddi hann um endurkomu Lars Lagerback sem verður Arnari og Eiði Smára til aðstoðar við þjálfun Íslands. Það tók nokkra fundi að fá þann sænska um borð í starfsteymið.

Hugmynd sem Guðni kom með
„Lars vildi skiljanlega fá að kynnast mér og kynnast Eiði sem þjálfara, hvernig við sjáum fyrir okkur hlutina. Við þurftum að taka nokkra fundi til að fá hann með okkur í þetta en það tókst," segir Arnar.

„Þetta var hugmynd sem Guðni (Bergsson, formaður KSÍ) kom með. Við vorum búnir að taka nokkra fundi þegar þessi hugmynd kom. Mér og Eiði leyst mjög vel á þessa hugmynd frá byrjun. Sem þjálfari á maður að nýta sér þá hjálp sem maður getur fengið. Það er rosalega sterkt og gott að hafa svona fólk við hlið sér í staffinu."

Lagerback kemur með gríðarlega reynslu að borðinu.

„Hann hefur verið í þessum aðstæðum, keppnum og leikjum mjög oft. Við getum spurt Lars út í andstæðingana, sem hann hefur kannski mætt fjórum sinnum. Hvaða strategía virkar best gegn þessari þjóð? Menn eru að alltaf að leita að þessum aukaprósentum sem maður hefur ekki sjálfur eða staffið í heild sinni."

Mun ekki sitja úti í horni
Lagerback var kynntur sem tæknilegur ráðgjafi en í viðtali við Vísi sagðist Lars ósammála þeim titli, hann væri einfaldlega aðstoðarmaður Arnars.

„Það var smá erfitt að setja titil á þetta," segir Arnar. „Ég vil tala um að hann sé bara huti af starfsteyminu. Við erum bara 'eitt staff' og allir eru með sín hlutverk í því. Það er jú alveg á reiki hvað menn vilja kalla þetta en mér er alveg sama, hann er bara hluti af staffinu, punktur."

Starf Lagerback verður ekki skrifstofuvinna, hann tekur virkan þátt í allri vinnu í kringum liðið.

„Það var algjört lykilatriði fyrir mig. Það var ekkert mál að nálgast menn eins og Lars í þetta bara fyrir PR-ið, vera rosa flottir og fínir og segjast vera með Lars með okkur. Það myndi samt ekki virka til lengri tíma. Ég sagði við Lars strax að það væri ekki ætlunin að hann myndi sitja úti í horni. Lars mun taka fundi með leikmönnum og liðinu, hann mun leikgreina andstæðingana og okkar leik. Eins og við hinir gerum. Það er verið að vinna hlutina mikið saman. Lars er ekki kominn sem postulínsdúkka," segir Arnar.

Á ekki breik í Guardiola!
Varðandi leikkerfi Íslands segir Arnar að það verði ekkert endilega spilað 4-4-2 en það sé þó margt varðandi hugmyndafræði Lars sem rími við hvernig íslensk landslið verði að spila.

„Við höfum rætt við Lars um leikkerfi. Það sem er mikilvægast í þessu er að þetta er íslenskt leikkerfi, þetta er íslenskt DNA. Við göngum út frá góðum og þéttum varnarleik. Mín hugmyndafræði gengur ekki út á 'possession', ég á ekki breik í Guardiola! Við erum að ganga út frá góðum varnarleik og hröðum sóknarleik. Þegar ég nefni þessa hluti tengjum við strax við Lars. Hvort við verðum með tvo sentera eða einn, það gæti breyst eitthvað aðeins annað slagið. Ég hef annars ekki mikla trú á mörgum leikkerfum með landsliði, maður hefur svo lítinn tíma til að drilla sitt kerfi. Mér þykir mjög mikilvægt að leikmennirnir hafi ákveðna grind til að stíga inn í þegar þeir koma í landsliðið," segir Arnar Þór Viðarsson.
Fótboltafréttir vikunnar - Arnar Viðars um endurkomu Lagerback
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner