mán 15. febrúar 2021 23:14
Brynjar Ingi Erluson
Tuchel: Mendy er markvörður númer eitt
Thomas Tuchel faðmar Marcos Alonso eftir leikinn
Thomas Tuchel faðmar Marcos Alonso eftir leikinn
Mynd: Getty Images
Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að markið hjá Timo Werner hafi verið verðskuldað en liðið vann Newcastle 2-0 á Stamford Bridge í kvöld.

Chelsea er komið upp í fjórða sæti deildarinnar og hefur Tuchel farið vel af stað eftir að hann tók við af Frank Lampard.

Werner skoraði þá fyrsta mark sitt í deildinni síðan í byrjun nóvember og allt virðist á uppleið hjá klúbbnum.

„Þetta var mjög gott kvöld, jafnvel fullkomið. Við vissum að við áttum möguleika á því að komast upp í fjórða sætið. Við nýttum það tækifæri og nú fá strákarnir vel verðskuldað tveggja daga frí," sagði Tuchel.

„Þetta var löng bið hjá Timo Werner. Hann var mjög atkvæðamikill í síðustu leikjum með stoðsendingar og núna var hann með mark og stoðsendingu. Þetta er það mikilvægasta fyrir framherja og það eru engin myndbönd eða umræður sem geta hjálpað þeim með það. Þetta var vel verðskuldað."

Kepa Arrizabalaga byrjaði þá í markinu eftir fína frammistöðu gegn Barnsley í bikarnum á dögunum.

„Við tókum þessa ákvörðun með markmannsþjálfaranum og hinum markvörðunum. Við sjáum þá sem eina heild sem eru að berjast um eitt sæti. Þér þarf að líða öruggum til að vera besti kosturinn í stöðuna. Hann gerði vel í síðasta leik og við ákváðum að gefa honum leik í deildinni því við þurfum tvo eða þrjá sterka markverði til að ná markmiðum okkar. Ég er mjög ánægður með frammistöðuna hjá honum en Edouard Mendy er markvörður númer eitt og mun snúa aftur í rammann."

Tammy Abraham fór meiddur af velli eftir tuttugu mínútur en Tuchel vonar að meiðslin séu ekki af alvarlegum toga.

„Þetta var nógu alvarlegt að hann þurfti að fara af velli og við höfum áhyggjur af honum en vonandi missir hann ekki af mörgum leikjum," sagði hann ennfremur.
Athugasemdir
banner
banner
banner