Albert Guðmundsson var á sínum tíma aðalvonarstjarna íslenska fótboltans. Hann átti að vera aðalmaðurinn í að taka við keflinu af gullkynslóðinni, hann var efnilegasti leikmaður landsins fyrir um tíu árum síðan. Albert er uppalinn í KR en æfði meðal annars með Arsenal og LIverpool áður en hann fór til Hollands og gerði samning við Heerenveen.
Hann var í unglingaliðum Heerenveen en fór svo yfir til PSV Eindhoven, sem er annað af tveimur stærstu félögum Hollands. Hann gerði góða hluti með Jong PSV og spilaði nokkra leiki með aðalliðinu þar. Það skilaði honum í HM-hóp Íslands þar sem hann átti að vera einhvers konar X-faktor fyrir liðið.
Albert hefur spilað 33 A-landsleiki og skoraði í þeim sex mörk, en það er erfitt að færa rök fyrir því að hann hafi verið frábær með landsliðinu.
Núna er 25 ára, að verða 26 ára á þessu ári, og hann er ekki einu sinni lengur í hópnum út af slæmu hugarfari að sögn þjálfarans. „Það eru vonbrigði að hann sé ekki tilbúinn til að koma inn í landsliðið á forsendum liðsins. Þessar forsendur eru þær sömu fyrir alla leikmenn, hvort sem þú ert 19 ára eða 34 ára," sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, þegar hópurinn fyrir fyrstu leikina í undankeppni EM var tilkynntur.
Í raun hefur landsliðsferill Alberts bara verið nokkuð mikil vonbrigði hingað til. Fólk bjóst við meiru en hann hefur sýnt hingað til. Það er þó enn tími fyrir hann að koma til baka og gera vel með landsliðinu, en hér fyrir neðan má sjá tímalínu yfir landsliðsferil hans og hvað það var sem gerðist til þess að hann er ekki í hópnum í dag.
Þrenna gegn Indónesíu (14. janúar, 2017)
Albert lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Kína á China Cup æfingamótinu árið 2017. Þar kom hann inn á sem varamaður í blálokin. Hann stimplaði sig svo heldur betur inn í æfingaleik gegn Indónesíu þann 14. janúar 2018. Hann byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður þegar 27 mínútur voru liðnar. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í leiknum.
Hann fékk tíu í einkunn fyrir frammistöðu sína og urðu væntingarnar miklar, þó svo að andstæðingurinn hafi ekki verið sá sterkasti. Landsmenn héldu ekki vatni yfir honum á samfélagsmiðlum en Heimir Hallgrímsson, þáverandi landsliðsþjálfari, var talsvert rólegri.
„Það er bara undir honum komið (hversu langt hann getur náð). Hann hefur fjölmarga einstaklingshæfileika sem geta komið öllum liðum til góða. Hann á líka ýmislegt eftir ólært," sagði Heimir og bætti við: „Það er bara hans að segja til um það hversu langt hann nær. Hann á mikla möguleika ef hann heldur rétt á spilunum."
Valinn í HM-hópinn (11. maí, 2018)
Sumarið 2018 var Albert svo valinn í HM-hóp okkar Íslendinga fyrir mótið í Rússlandi. Hann var yngsti leikmaðurinn í hópnum og var ekki búinn að spila einn keppnisleik með liðinu áður en hann var valinn í hópinn. Hann átti að vera X-faktorinn í hópnum. Á mótinu sjálfu fékk hann aðeins að spila um tíu mínútur en hann kom inn á sem varamaður í lokaleiknum gegn Króatíu.
Kári Árnason, einn reynslumesti maðurinn í liðinu á þeim tíma, sagði í kjölfarið að það hefðu verið mistök að velja Albert frekar en Kolbein Sigþórsson í hópinn.
„Við vorum með Albert Guðmunds þarna sem var bara kjúklingur. Hann var búinn að vera spila með varaliði PSV á þessum tíma og var bara engan veginn klár í þetta. Sama hversu góður hann á eftir að verða er Kolli alltaf maðurinn í það verkefni að berjast við tveggja metra háa miðverði. Sama þótt hann hefði bara spilað fimm mínútur á mótinu hefði ég alltaf tekið Kolla með," sagði Kári í hlaðvarpsþættinum Draumaliðið.
Eftir HM hélt Albert áfram að fá tækifæri með landsliðinu en var samt inn og út úr liðinu, og tókst ekki að taka þau tækifæri sem hann fékk með báðum höndum. Í undankeppni EM 2020 var Albert meira og minna varamaður, en hann fékk alls 79 mínútur í allri undankeppninni. Meiðsli settu strik í reikninginn en hann byrjaði sjö sinnum á bekknum í undankeppninni.
Erik Hamren og Freyr Alexandersson, sem tóku við landsliðinu eftir HM, settu traust sitt mikið á það lið sem hafði náð mögnuðum árangri árin á undan og var Albert mikið á bekknum.
Fengið langflestar mínútur sínar eftir að Arnar tók við
Langflestar mínútur Alberts með A-landsliðinu hafa komið eftir að Arnar Þór Viðarsson tók við liðinu í desember 2020. Það urðu náttúrulega miklar breytingar á liðinu af ýmsum mismunandi ástæðum og við það varð Albert byrjunarliðsmaður.
Hann byrjaði reyndar fyrsta leikinn í undankeppninni fyrir HM á bekknum en kom inn á sem varamaður í 3-0 tapi gegn Þýskalandi. „Já auðvitað vil ég byrja en ef Arnar (Þór Viðarsson) heldur að besta hlutverkið fyrir mig sé að vera á bekknum, þá tek ég því alveg. Ég veit innst inni að ég er bestur á vellinum," sagði Albert við Fótbolta.net eftir leikinn en síðar meir varð hann svo ósáttur við að vera á bekknum.
Eftir leikinn hrósaði Arnar leikmanninum og í kjölfarið byrjaði Albert átta af tíu leikjum Íslands í undankeppninni. Arnar gagnrýndi þá umræðu sem hefur verið um að Albert sé latur leikmaður, en sú umræða hefur verið að Albert sé ákveðinn lúxusleikmaður sem henti íslenska landsliðinu einfaldlega ekki
„Þessi umræða hefur verið síðan Albert kom inn í landsliðið, að það væri einhver letingi í honum en ég er ekki sammála því. Þeir sem fylgjast með leikjum hans í hollensku úrvalsdeildinni vita að Albert vinnur sína vinnu... Það vita allir að Albert hefur hæfileika til að vera landsliðsmaður Íslands. Hvert sem hans hlutverk verður næstu mánuði og ár, það fer eftir honum. Það er sama með hann og alla leikmenn; þeir sem stíga upp og taka tækifærin, þora að gera hluti og mistök líka, þeir munu alltaf fá stórt hlutverk í landsliðinu," sagði Arnar.
Hann fékk alvöru séns, en Albert átti ekki góða undankeppni - eins og liðið í heild sinni - en hann var fjórði neðsti af leikmönnum Íslands í einkunnagjöf Fótbolta.net. Hann skoraði tvö mörk en þau komu bæði af vítapunktinum í 4-0 sigri á Liechtenstein. Hann átti þá eina stoðsendingu, í 2-2 jafntefli gegn Norður-Makedóníu á heimavelli.
„Ég veit að hann er orðinn einhvers konar óskabarn þjóðar fyrir að hafa gert nánast ekki neitt - bara af því hann er góður í fótbolta," sagði Tómas Þór Þórðarson í Innkastinu í september 2021. „Hann skoraði þrennu á móti sýningarliði og fólk er löngu búið að gleyma því. Ef þú myndir spyrja annan hvern mann út á götu: 'Af hverju elskarðu Albert Guðmundsson?' Svarið yrði af því hann er sonur Gumma Ben og hann lítur vel út með boltann."
Albert settur aftur á bekkinn (2. júní, 2022)
Eftir að Albert hafði verið byrjunarliðsmaður mestallt 2021, þá var hann mættur aftur á varamannabekkinn þegar Ísland spilaði gegn Ísrael á útivelli í Þjóðadeildinni síðasta sumar. „Við erum með efnilegan og góðan leikmannahóp. Við erum að fara í fjögurra leikja hrinu og verðum að velja vel. Fyrir þennan leik var þetta okkar vel og fyrir strategíuna í leiknum töldum við þetta vera besta byrjunarliðið," sagði Arnar Þór fyrir leikinn og bætti við: „Maður velur kannski aðra styrkleika meira en Albert hefur fyrir þennan leik."
Albert kom inn á sem varamaður í leiknum en var gagnrýndur fyrir innkomu sína. „Albert er að spyrja sig af hverju hann er ekki í byrjunarliðinu. Þarna ertu bara með svarið," sagði Kári Árnason, fyrrum liðsfélagi Alberts, á Viaplay þegar rúllað var yfir myndbrot úr leiknum. Í myndbrotinu sást þegar Albert fór af hálfum hug í einvígi um boltann.
Í þessum sama landsleikjaglugga spilaði Ísland þrjá aðra leiki; vináttulandsleik gegn San Marínó og heimaleiki gegn Albaníu og Ísrael í Þjóðadeildinni. Albert spilaði 87 mínútur gegn San Marínó í einum slakasta landsleik síðari ára og fékk síðan að koma inn á í lokin í heimaleiknum gegn Ísrael. Hann var ónotaður varamaður gegn Albaníu; hlutverk hans var orðið afskaplega lítið allt í einu og það vakti mikla athygli.
„Hann er hundfúll og ég væri líka hundfúll út í hann ef hann væri ekki fúll," sagði Arnar er hann var spurður út í Albert, sem var þarna kominn til Genoa á Ítalíu, eftir að hann kom ekkert við sögu gegn Albaníu. Arnar sagði að það hefði verið taktísk ákvörðun að geyma Albert á bekknum.
Sögusagnir um rifrildi (13. júní, 2022)
Þann 13. júní í fyrra byrjaði Albert á bekknum gegn Ísrael og var settur inn á í lokin. Fyrir leikinn höfðu heyrst sögur um ósætti milli Arnars og Alberts á myndbandsfundi, og var landsliðsþjálfarinn spurður út í þær sögur eftir leikinn.
„Nei, þetta er bara ekki satt. Ég hef ekki lent í neinu rifrildi við Albert. Við höfum rætt hlutina, ég og Albert. Hann er mjög faglegur og við höfum átt nokkra fundi og talað saman í þessum glugga. Ég veit að þetta er mjög erfitt fyrir hann og það er eðlilegt að hann sé ekki sáttur. En okkur lenti ekkert saman," sagði Arnar þá. Svo fóru menn heim. Albert Brynjar Ingason, frændi Alberts, tjáði sig um málið í Dr Football hlaðvarpinu eftir leikinn á móti Ísrael og sagði að það væri augljóslega eitthvað í gangi á bak við tjöldin.
„Mér finnst mjög augljóst að það er eitthvað í gangi þar. Albert var í stóru hlutverki hjá honum í verkefnunum á undan þessu. Hann skorar tvö mörk á móti Liechtenstein. Svo er hann allt í einu í engu hlutverki... Það er eitthvað í gangi þar... það er klárt mál."
„Það er eitthvað í fari Alberts sem pirrar þjálfara, þeir eru fljótir að taka einhvern pirring út á Alberti," bætti þáttastjórnandinn Hjörvar Hafliðason svo við.
Svo var það hópurinn í september (16. september, 2022)
Í hádeginu á föstudeginum 16. september 2022 var svo hópur tilkynntur fyrir síðasta leikinn í Þjóðadeildinni gegn Albaníu. Stærst var það að Albert var ekki valinn í hópinn og fór Arnar þá í engan feluleik með ástæðuna fyrir því.
„Ég var mjög svekktur út í hugarfar Alberts í síðasta glugga. Það er mikill heiður að vera valinn í landsliðið og menn þurfa að vera 100% með eða ekki. Leikmenn Íslands hafa alltaf sett frammistöðu liðsins fram yfir eigin frammistöðu og ég tel að það sé lykillinn að árangri. Þetta er ákvörðun sem ég tek fyrir þennan glugga en ég loka ekki neinu í framtíðinni. Þegar Albert er tilbúinn að vinna innan þess ramma sem ég set þá er pláss fyrir hæfileikaríka menn eins og hann," sagði þjálfarinn.
Arnar, sem er ekki vinsælasti landsliðsþjálfari sögunnar, stóð þarna fast í fæturnar og sagði að Albert hefði ekki sett liðsheildina í forgang. Í kjölfarið var rætt um málið í útvarpsþættinum Fótbolta.net.
„Albert er orðinn 25 ára gamall. Hann er gríðarlega hæfileikaríkur en við hefðum viljað sjá meira frá honum í landsliðsbúningnum. Það voru væntingar til þess að hann yrði í stærra hlutverki og myndi gera meira," sagði Elvar Geir Magnússon í þættinum.
„Hann varð mjög góður, mjög snemma. Hann átti að vera helsti kyndilberi næstu kynslóðar miðað við hæfileikana, en hæfileikar eru eitt og - miðað við það sem Arnar segir - eru vilji og dugnaður eitthvað annað," sagði Tómas Þór Þórðarson. „Hann er frábær leikmaður á sínum degi og það eru ekki margir mikið betri með boltann í fótunum, en íslenska landsliðið snýst voðalega lítið um það."
Tómas bætti við að sér þætti ólíklegt að Albert myndi spila aftur fyrir Arnar. „Það kæmi mér á óvart ef Albert spilar aftur fyrir Arnar... ég get ekki ímyndað mér að Albert sé ánægður með þetta - líka af því að hann segir þetta svo opinberlega."
Ekki verið valinn síðan þá
Þá til dagsins í dag. Núna er komið að fyrstu keppnisleikjunum síðan á síðasta ári og enn er Albert ekki í íslenska landsliðinu. Hann hefur verið að leika vel með Genoa í ítölsku B-deildinni en er samt sem áður ekki í hópnum út af ósætti við landsliðsþjálfarann.
„Hurðin er alltaf opin hjá mér þegar menn eru tilbúnir að koma til baka og vera á þeim forsendum sem liðið þarf á að halda. Það er staðan eins og hún er akkúrat núna og hún hefur ekki breyst frá því í september," sagði Arnar í spjalli við Fótbolta.net síðastliðinn janúar en hann bætti við að sér þætti það eðlilegast ef Albert myndi leita til sín eftir það sem hafði gerst.
„Mér þætti það eðlilegt. Þannig ganga yfirleitt þessir hlutir fyrir sig. Það er samt ekkert skrifað í stein. Hurðin er alltaf opin hjá mér að taka samtalið við Albert. Ef það kemur ekki frá honum þá kemur einhvern tímann að því að ég taki upp símann. Það er ekkert skrifað í stein hvernig svona málum er háttað."
Hann og Albert ræddu svo saman nýverið en niðurstaðan eftir það spjall var að leikmaðurinn yrði ekki í hópnum. „Það eru vonbrigði að hann sé ekki tilbúinn til að koma inn í landsliðið á forsendum liðsins," sagði Arnar um Albert í dag en á morgun mun landsliðsþjálfarinn vera í viðtali þar sem hann verður spurður nánar út í Albert og margt fleira.
Framundan eru leikir á móti Bosníu og Liechtenstein í undankeppni EM, fyrstu leikirnir í nýrri undankeppni, en þar verður Albert ekki þó hann hafi verið að spila vel með Genoa. Hann hefur sjálfur ekkert tjáð sig um málið en hann birti þó myndband á samfélagsmiðlum í gær. Eru það myndbandsklippur með hans bestu tilþrifum upp á síðkastið. Mögulega má túlka það sem einhvers konar skilaboð til landsliðsþjálfarans. Hér fyrir neðan má sjá myndbandið.
Líkt og áður segir, þá er enn mikill tími fyrir þennan hæfileikaríka leikmann að hjálpa landsliðinu. Hvort það verður einhvern tímann, það mun tíminn leiða í ljós. Leikmaður með hans gæði ætti að geta nýst landsliðinu, en hann verður þá að vera með rétt hugarfar. Íslenska landsliðið hefur nefnilega engan veginn efni á því að vera með lúxusleikmenn með slæmt hugarfar í liðinu. Liðið er
Sjá einnig:
„Mjög góður fótboltamaður en hausinn á honum hefur ekki verið skrúfaður á með landsliðinu"
„Spái því að þeir slíðri sverðin og geri þetta fyrir Ísland“
Telur útilokað að Albert verði í hópnum - Erfitt að losa um hnútinn
Athugasemdir