Lækka verðmiðann á Garnacho - Arsenal hefur áhuga á Coman - Frankfurt setur verðmiða á Ekitike
   þri 15. apríl 2025 12:12
Innkastið
„Taka frábæran miðjumann og búa til miðlungs hafsent“
Arnór Gauti Jónsson.
Arnór Gauti Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var bara sanngjarn sigur Framara á móti linu liði Blika," segir Valur Gunnarsson í Innkastinu þar sem 2. umferð Bestu deildarinnar var gerð upp. Fram vann magnaðan sigur gegn Breiðabliki 4-2 á sunnudaginn.

Í Innkastinu er sett spurningamerki við að Arnór Gauti Jónsson sé látinn spila sem miðvörður. Hann var frábær á miðju Breiðabliks þegar liðið vann Íslandsmeistaratitilinn á síðasta tímabili en hefur leikið í hjarta varnarinnar eftir að Damir Muminovic hélt til Asíu.

„Þú ert að taka frábæran miðjumann og búa til miðlungs hafsent," segir Valur og Magnús Haukur Harðarson tekur undir þetta.

„Af hverju var ekki sóttur miðvörður? Er verið að reyna að koma öllum fyrir? Arnór Gauti var einn besti og mikilvægasti leikmaður Breiðabliks seinni hlutann í fyrra og tengdi saman vörn og miðju. Þetta er leikmaður sem æfir eins og sannur atvinnumaður og er algjör fyrirmynd. Honum er engum greiði gerður, hann hefur marga kosti en er ekki frábær með boltann í fótunum og spurning hvort hann eigi að vera að hefja uppspil," segir Magnús.

Á bekknum hjá Blikum gegn Fram voru tveir miðverðir; Ásgeir Helgi Orrason sem var frábær á láni hjá Keflavík í fyrra og Daninn Daniel Obbekjær. Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, hefur frekar treyst á Arnór í miðverðinum.

Ekki mæta í viðtal og væla
Í Innkastinu er einnig talað um ummæli Halldórs í viðtölum eftir leik þar sem hann gagnrýnir línu dómarans og segir Framara hafa fengið að taka of fast á sínu liði. Sérfræðingunum finnst ódýrt hjá Halldóri að gagnrýna dómarann.

„Breiðablik vann úrslitaleikinn gegn Víkingi á Íslandsmótinu í fyrra á því að keyra Víkinga niður. Svo mætir Dóri í viðtal eftir þennan leik og gagnrýnir Fram fyrir að keyra þá niður. Mætið þeim en ekki koma í viðtal og væla eftir leik þegar þú hefur unnið Íslandsmeistaratitil á nákvæmlega sama bragði einhverjum mánuðum fyrr," segir Valur í þættinum.
Innkastið - Fyrirliðinn missir hausinn og meistarar hrynja
Athugasemdir
banner