Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mán 15. júlí 2024 12:07
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Freysi sagði nei við næstbesta lið Belgíu
Freysi og Hartmann.
Freysi og Hartmann.
Mynd: Kortijk
Mynd: Kortrijk
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hafnaði Freyr Alexandersson, þjálfari Kortrijk, tilboði frá Union St. Gilloise um að taka við sem þjálfari liðsins. Freysi vildi fá að taka með sér aðstoðarmanninn sinn, Jonathan Hartmann, en fékk það ekki í gegn og ákvað því að hafna tilboðinu.

Freysi náði á ótrúlegan hátt að halda Kortrijk uppi í deild þeirra bestu í Belgíu og eðlilega hefur það vakið athygli.

Union St. Gilloise missti af belgíska meistaratitlinum eftir að hafa farið með forskot inn í meistaraumspilið. Club Brugge var besta liðið þar og vann að lokum titilinn með einu stigi. Union fer í forkeppni Meistaradeildarinnar, kemur þar inn í 3. umferð forkeppninnar.

Freysi var á óskalista Union sem hefur ráðið Sebastien Pocognoli sem var á sínum tíma leikmaður WBA í ensku úrvalsdeildinni og belgískur landsliðsmaður.

Úr viðtali við Fótbolta.net í maí:
Krafa að Jonathan færi með
Í viðtali við RÚV sagði Freysi að hann hefði staðið í lappirnar varðandi góðan samning fyrir aðstoðarmanninn sinn. Jonathan Hartmann var aðstoðarmaður Freysa hjá Lyngby og vildi Freysi fá hann með sér.

„Það var bara erfitt að fá fínan samning fyrir hann. Félög vilja aldrei borga aðstoðarmönnum neitt (almennilegt). Ég talaði við þrjá klúbba í desember, í mismunandi löndum. Ég ætlaði aldrei að fara neitt nema Jonathan færi með mér. Það var bara erfitt að fá klúbbana til að gefa aðstoðarmönnum almennilegan samning. Ég náði því í gegn í Kortrijk og það skipti mig miklu máli."

Hvað er það sem gerir hann að svona góðum aðstoðarmanni?

„Hann er í fyrsta lagi eldklár, með mjög gott vinnueðli; vinnur mjög mikið, duglegur og tekur frumkvæði. Hann er frábær á æfingasvæðinu, með góðar æfingar, leikmönnum líkar vel við hann og setur kröfur. Svo spyr hann mig spurninga, hann er ekki bara Já-maður, lætur mig virkilega finna fyrir því, sem er akkúrat það sem ég vil og hann gerir það á réttan hátt."

„Hann er traustur, ég get reitt mig á hann og svo þekkir hann mig út og inn. Hann veit nákvæmlega hvað hann á að gera og hvenær hann á að gera það; hvenær hann á að þagga aðeins niður í mér og róa mig niður eða hvenær á að hvetja mig áfram. Hann er frábær í því að fá það besta út úr mér."

Athugasemdir
banner
banner