fim 15. október 2020 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mjög ánægður með hvernig Gylfi hefur byrjað tímabilið
Mynd: Getty Images
Michael Ball, sem spilaði yfir 100 leiki fyrir Everton á sínum leikmannaferli, er ánægður með það hvernig Gylfi Þór Sigurðsson hefur komið inn í þetta tímabil með félaginu.

Gylfi átti erfitt uppdráttar á síðustu leiktíð með Everton. Everton keypti Abdoulaye Doucouré, Allan og James Rodriguez í sumar. Gylfi byrjaði fyrstu þrjá deildarleikina á bekknum og er ekki lengur fremstur í goggunarröðinni hjá félaginu.

Hann hefur hins vegar byrjað í deildabikarnum og kom inn í byrjunarliðið í síðasta deildarleik gegn Brighton, þar sem hann lagði upp mark fyrir hinn sjóðheita Dominic Calvert-Lewin. Gylfi hefur spilað vel þegar hann hefur fengið tækifæri til þess, og íslenski landsliðsmaðurinn hefur hrifið Ball.

„Í augnablikinu er Gylfi Sigurðsson að sýna það sem þú vilt fá frá hverjum einasta leikmanni," sagði Ball í samtali við Liverpool Echo.

„Carlo Ancelotti vill halda okkur á toppnum og hann vill að hópurinn setji pressu á þá sem er að byrja. Við fengum inn leikmenn til að koma okkur á næsta stig og þeir eru að standa sig vel. Á meðan fá aðrir leikmenn tækifæri til að koma inn í leikjum og sýna hversu mikið þeir eru tilbúnir að berjast fyrir treyjuna."

The Athletic segir að Al-Hilal í Sádí-Arabíu hafi reynt að fá Gylfa áður en glugginn lokaði en íslenski landsliðsmaðurinn afþakkaði boðið þar sem hann vill vera áfram hjá Everton og berjast fyrir sæti sínu.

Everton, sem hefur unnið fyrstu fjóra leiki sína á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni, á leik gegn Liverpool um helgina. Vonandi færi Gylfi að byrja þar, en hann hefur spilað mjög vel á þessari leiktíð þegar hann hefur fengið tækifæri.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner