
Sverrir Þór Sverrisson og Björn Bragi Arnarsson, skemmtikraftar með meiru, mættu í útvarpsþátt Fótbolta.net á X-inu í dag, en þátturinn er í gangi núna.
Ísland og Króatía mætast í fyrri umspilsleik í kvöld á Laugardalsvelli, en óhætt er að segja að þessir leikir eru stærstu leikir landsliðsins frá upphafi.
Sveppi byrjaði á því bjóða upp á fréttir af liðinu, en Eiður Smári Guðjohnsen byrjar ekki á inná, heldur mun Alfreð Finnbogason byrja frammi.
,,Ég er brjálaður núna af því að Eiður byrjar ekki inná, Alfreð Finnbogason byrjar. Þetta er skúbb í beinni útsendingu og þetta er staðfest, Eiður byrjar á bekknum og það pirrar mig sko," sagði Sveppi.
,,Ég fór til hans í morgun og við fengum okkur kaffi og hann sagði mér frá þessu. Þeir ætla að spila með Kolla og Alfreð frammi, þeir eru greinilega að fara að spila einhvern sóknarbolta en hann ætlar að henda Eið út og vera með tvo djúpa sentera."
,,Hverjum er ekki drullusama hver er í bakverði? Ég get ekki nefnt það á nafn einu sinni, hver er í bakverði? Það er öllum sama um það," sagði Sveppi léttur.
Sveppi og Eiður er æskuvinir og hafa verið bestu vinir frá 10 ára aldri, en hann segir að hann sé í frábæru formi.
,,Eiður er sultuslakur og hokinn af reynslu. Það er svo þægilegt að vera í stúkunni þegar hann er inná, maður verður ekki stressaður. Yfirvegað og fínt."
,,Við hittumst á fótboltaæfingu fyrst þegar við vorum 10 ára, amma hans og afi bjuggu í Seljahverfinu og hann var voða mikið með þeim þannig hann fór að æfa með ÍR í kjölfarið af því og pabbi hans bjó alltaf úti," sagði hann ennfremur.
Björn Bragi mætti aðeins síðar í þáttinn, en hann er virkilega bjartsýnn fyrir leikinn gegn Króötum í kvöld.
,,Ég er ekki búinn að sofa í þrjá daga núna. Ég borðaði hádegismat í gær með manni og ég veit að við erum að fara að vinna þetta einvígi, það er ekkert sem kemur í veg fyrir íslenskan sigur sagði þessi maður. Hann var svona sannfærandi, ég var temmilega bjartsýnn en eftir þetta er ég svo sigurviss að ég er byrjaður að skoða hótel í Brasilíu," sagði Björn Bragi.
Hægt er að hlusta á upptökuna hér fyrir ofan.
Athugasemdir