Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   sun 15. nóvember 2020 16:42
Ívan Guðjón Baldursson
Ray Clemence er látinn
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Enska goðsögnin Ray Clemence lést í dag, 72 ára gamall. Clemence gerði garðinn frægan sem markvörður Liverpool og enska landsliðsins.

Hann lék 61 landsleik fyrir England og vann ensku deildina fimm sinnum með Liverpool og Evrópubikarinn þrisvar.

Clemence glímdi við langtíma veikindi og var umvafinn fjölskyldumeðlimum.

Clemence lék 665 leiki undir stjórn Bill Shankly og Bob Paisley hjá Liverpool og skipti svo til Tottenham þar sem hann vann UEFA bikarinn. Hann lék fyrir Tottenham til fertugs, allt þar til hann þurfti að leggja hanskana á hilluna vegna meiðsla.

Clemence var fyrsti markvörðurinn til að bera fyrirliðaband enska landsliðsins í 30 ár.

Hann tók við stjórnartaumunum hjá Tottenham 1992 og stýrði svo Barnet frá 1994 til 1996. Eftir það gekk hann í þjálfarateymi enska landsliðsins og starfaði þar undir stjórn Glenn Hoddle, Kevin Keegan, Sven-Göran Eriksson og Steve McClaren, allt þar til Fabio Capello tók við og kom með sinn eigin markmannsþjálfara.

„Það er hörmulegt að heyra fregnirnar um að Ray Clemence sé látinn. Við vorum andstæðingar á vellinum en góðir vinir utan hans. Ray var stórkostlegur markvörður með frábæra kímnigáfu. Ég mun sakna hans sárt þar sem við héldum góðum vinaböndum langt eftir ferilinn. Hvíl í friði kæri vinur," skrifaði Peter Shilton á Twitter.
Athugasemdir
banner
banner
banner