Börsungar vilja varnarmann Bournemouth - Man Utd vill tvo leikmenn - Igor Thiago til Liverpool?
   sun 16. apríl 2023 17:42
Brynjar Ingi Erluson
Yfirlýsing frá ÍTF: Okkar von að hentugur tími finnist sem allra fyrst
Kvenaboltinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
ÍTF (Íslenskur toppfótbolti) hefur sent frá sér yfirlýsingu sem varðar Bestu deild kvenna en þar er yfirlýsingu fyrirliða úr deildinni svarað og er nú vonast eftir því að hægt verði að ná sáttum.

Samtökin hafa mátt þola mikla gagnrýni upp á síðkastið. Fyrir tímabilið var mikil umræða vegna kynjakvótans í auglýsingu fyrir Bestu deildina.

Þar voru leikmenn úr karladeildinni í miklum meirihluta. Ofan á það var tilkynnt að aðeins yrði Fantasy-leikur fyrir karladeildina þar sem gögnin voru ekki í boði fyrir kvennadeildina.

Á föstudag fengu aðildarfélög tilkynningu um það að leikmenn úr Bestu deild kvenna ættu að mæta til ÍTF á morgun milli 18:00 - 20:00 til að taka upp markaðsefni fyrir deildina en Valur og Stjarnan eigast við klukkan 19:30 og þótti því sá tími afar óhentugur.

Fyrirliðar úr Bestu deild kvenna sendu frá sér yfirlýsingu í gær og kom þar fram að leikmenn myndu ekki mæta í upptökur en ÍTF vonast nú til að ná sáttum.

Samtökin hafa boðað forsvarsmenn félaga úr deildinni til að mæta á fund og ræða komandi tímabil.

Yfirlýsing ÍTF

„Vegna yfirlýsingar fyrirliða í Bestu deild kvenna vill ÍTF koma eftirfarandi á framfæri.“

„Upptökur sem voru boðaðar á mánudaginn kl 18:00 - 20:00 eru mikilvægur liður í gerð markaðsefnis fyrir komandi tímabil í deildinni. Umrætt fundarboð var sent á forsvarsmenn aðildarfélaga á morgni föstudags.“

„Fram kom að tímasetningin hentaði ekki öllum félögum enda upptökur fyrir mistök boðaðar ofan í mikilvægan leik Vals og Stjörnunnar. Við þessum árekstri var hins vegar brugðist strax með því að bjóða upp á annan tíma á öðrum degi.“

„ÍTF hefur boðað forsvarsmenn félaga í Bestu deild kvenna á fund á morgun, mánudag til að ræða þau málefni sem varða deildina og komandi keppnistímabil. Það er okkar von að hentugur tími finnist sem allra fyrst svo að klára megi upptökur og sátt náist um að vinna uppbyggilega saman að árangursríku og skemmtilegu tímabili.

Virðingarfyllst,
ÍTF.“

Athugasemdir
banner