Grótta var að krækja í öflugan markmannsþjálfara sem mun starfa hjá félaginu út tímabilið 2024. Það er Daninn Simon Toftegaard Hansen sem hefur síðastliðið ár starfað undir stjórn Freys Alexanderssonar hjá Lyngby í danska boltanum.
Simon starfaði áður fyrir Helsingör og Nordsjælland og mun hefja formlega störf hjá Gróttu 1. maí, en hann kíkti á aðstæður hjá félaginu í síðustu viku og var á bekknum í 3-2 sigri gegn Njarðvík í Mjólkurbikarnum.
„Eftir að hafa rætt við Magnús og Chris þá varð ég strax spenntur fyrir því að stökkva á tækifærið að flytja til Íslands og vinna fyrir Gróttu. Félagið er á vegferð sem mér finnst spennandi og vonandi getur reynslan sem ég kem með að borðinu hjálpað til. Síðustu dagar hafa verið mjög ánægjulegir og ég hlakka til að byrja á fullu í maí," sagði Simon.
Simon mun starfa sem markmannsþjálfari bæði fyrir meistaraflokk karla og kvenna og er stjórn Gróttu afar ánægð með að hafa tekist að krækja í hann frá Danmörku.
Athugasemdir