Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 16. júní 2022 20:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Alfreð brotnaði niður fyrir fyrsta leik á EM - „Lars fílaði mig ekki"
Alfreð gerði fyrsta mark Íslands á HM 2018.
Alfreð gerði fyrsta mark Íslands á HM 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lars Lagerback.
Lars Lagerback.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð og Heimir Hallgrímsson.
Alfreð og Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Alfreð Finnbogason hefur ekki alltaf verið í stóru hlutverki í íslenska landsliðinu. Þegar liðið komst á EM og lék þar, þá var hann í algjöru aukahlutverki.

Alfreð var nýverið í viðtali í Chess After Dark þar sem hann ræddi um landsliðið og stöðu sína þegar Ísland fór á sitt fyrsta stórmót. Hann segist hafa verið mjög ósáttur við hlutverk sitt á þeim tíma.

„Ég var það,” segir Alfreð spurður að því hvort hann hafi verið ósáttur við hlutverk sitt í íslenska landsliðinu á EM 2016.

„Ekki spurning. Ég er þannig gerður. Líka hvernig aðdragandinn að mótinu var. Ég spilaði ekki mikið í undankeppninni. Ég get líka sjálfur mér um kennt þar því þegar ég kom inn á í leiki var hausinn á mér ekki rétt stilltur. Ég var pirraður á stöðunni. Það var eitthvað með Lars (Lagerback), hann fílaði mig ekki. Það sýndi sig trekk í trekk, en þegar þú vinnur leiki þá hefurðu alltaf rétt fyrir þér.”

„Við spiluðum á sama liðinu í einhver þrjú ár. Lars er rosalega íhaldssamur þjálfari. Ef hann fer á klósettið klukkan 13:00 og við vinnum leikinn, þá er það sama rútína næst. Það var rosalegt að fylgjast með þessu, ég hef aldrei kynnst svona þjálfara. Þetta er það sem náði árangri fyrir hann á hans ferli.”

„Það var ákveðinn lágpunktur fyrir mig þegar við spiluðum við Tékkland heima. Ég kem ekki inn á. Á tímabili var ég fimmti senter. Kolli og Jói spiluðu frammi, Jón Daði kemur inn á og Eiður er næstur inn. Ég var að koma úr erfiðu tímabili á Spáni og var fimmti senter í landsliðinu, það gerðist eitthvað innra með mér.”

„Ég gerði allt sem ég gat gert fyrir EM… ég fer til Augsburg og skora sjö mörk og geri þrjár stoðsendingar í 13 leikjum í þýsku úrvalsdeildinni fyrir EM, en ég fattaði það seinna að það var búið að ákveða byrjunarliðið níu mánuðum áður. Ég var ánægður með hvernig ég tókst á við þessa stöðu, ég gerði allt sem ég gat gert.”

„Það eru oft hlutir í fótbolta og í lífinu sem þú stjórnar ekki, ég get ekki farið og slegið Lars utan undir - þó mig hafi langað það mjög oft. Þetta var búið að vera gulrót fyrir mig og þegar liðið var tilkynnt, þá fór ég upp á herbergi og brotnaði niður.”

Alfreð segist hafa reynt að ræða málin við Lars, sem þjálfaði liðið frá 2011 til 2016. „Já, oft. Hann útskýrði það en samt ekki. Ef ég er ekki að fýla aðstöðuna þá fer ég og ræði málin. Það er ekkert að því. Þegar tíminn er réttur, þá er það eðlilegt. Sumir þjálfarar þola ekki árekstra en ef þú ætlar að vera góður þjálfari þá þarftu að geta rætt við leikmenn, ánægða og óánægða. Ég átti spjöll við Lars en fann það einhvern veginn að Heimir var alltaf minn maður.”

Þegar Heimir Hallgrímsson tók svo einn við liðinu, þá fékk Alfreð traustið. Hann hjálpaði liðinu að komast á HM og leiddi sóknarlínuna þar. „Það gerði þetta allt þess virði, að fara í gegnum svona fasa. Mér fannst þetta ekki sanngjarnt en þegar þú ert að vinna fótboltaleiki þá er öllum drullusama hvað mér og minni fjölskyldu finnst.”

Er ekki hættur í landsliðinu
Alfreð hefur verið einstaklega óheppinn með meiðsli síðustu árin og hefur hann ekkert spilað með landsliðinu frá því að Arnar Þór Viðarsson tók við fyrir einu og hálfu ári. Hann segist hins vegar ekki vera hættur í landsliðinu.

„Ég er ekki hættur. Aðstæður hafa verið þannig síðustu tvö ár að þegar landsliðshópurinn er valinn þá hef ég ekki verið heill eða nýkominn úr meiðslum. Ég er heill núna en út af nokkrum ástæðum gaf ég ekki kost á mér. Meðal annars af því ég er að verða samningslaus.”

Alfreð, sem er 33 ára gamall, er að leita sér að öðru félagi í augnablikinu og væri gaman að sjá hann í hópnum seinna á þessu ári. Liðið er búið að breytast mikið að undanförnu og vantar reynslumikla menn eins og Alfreð.

Hægt er að hlusta - og horfa - á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner