„Ég er þokkalega sáttur. Ég hefði vissulega viljað sleppa við að fá á okkur mark en þeir þurftu víti til þess að skora á okkur og við fengum nokkur ágætis færi. Mér fannst við vaxa ágætlega inn í leikinn og í seinni hálfleik vorum við að stríða þeim og spila við þá. Við fáum mikið sjálfstraust út úr þessum leik.“ Sagði Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR-inga, eftir 0-1 tap gegn Norska liðinu Rosenborg í undankeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.
Lestu um leikinn: KR 0 - 1 Rosenborg
„Leikurinn er í þokkalegu jafnvægi. Þeir eru jú með forskot í þessu eina marki en það hverfur fljótt í leiknum úti þegar við verðum komnir 1-0 yfir. Þá er allt jafn, allt undir og pressan kannski frekar á þeim á meðan við getum verið að eins pressulausari.“
„Við viljum alltaf vinna leiki en við vildum ekki gera það á kostnað þess að fórna öllu til baka. Til þess að leikurinn úti sé skemmtilegur þá hefðum við ekki mátt fá á okkur annað mark, þá hefði þetta orðið mjög erfitt. En 1-0, þá er allt enn þá undir.“
Þorsteinn Már Ragnarsson, framherji KR-inga, fór meiddur út af velli í fyrri hálfleik en Bjarni á ekki von á að hann verði lengi úti. Hann á einnig von á því að Þorsteinn verði KR-ingur út tímabilið.
„Hann fékk högg á læri þannig ég á ekki von á því að hann verði lengi. Við erum með gott starfsfólk á bakvið okkur sem vinnur í þessum málum og ég á von á því að hann verði fljótur að ná sér.“
„Ég sé enga ástæðu aðra en að Þorsteinn verði með okkur út tímabilið.“
„Þessi hálftími sem Hólmbert spilaði var góður. Hann tengdi vel, hann er geysilega öflugur í loftinu og á jörðinni og náði góðum kontakt við nýju liðsfélagana. Ég er ánægður með hans framtak.“
Athugasemdir