Breiðablik lagði Fjölni 2-1 á Kópavogsvelli í Pepsí-deild karla í kvöld. Oliver Sigurjónsson skoraði sigurmarkið beint úr aukaspyrnu í uppbótartíma. Oliver sagðist vera mjög ánægður með þrjú stig eftir að hafa hleypt Fjölni inn í leikinn.
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 1 Fjölnir
„Þetta var aðeins of tæpt að mínu mati, við hleyptum þeim aðeins inn í leikinn en ég er bara rosalega ánægður með þrjú stig, það skiptir ekki máli hver skorar mörkin, það þarf bara að vinna leikina sem heild."
Oliver sagði að Gummi Steinars hefði gefið honum ráð fyrir aukaspyrnuna og ákvað að hlusta á hann í þetta skiptið.
„Ég sagði við Dabba að hann ætti að vera lengur á boltanum til að stilla honum upp og droppa aðeins aftur og ég myndi svo skjóta. Ég ætlaði svo að setja hann yfir vegginn en Gummi Steinars er búinn að grenja í mér alla vikuna að setja hann í markmannshornið. Ég setti hann svo bara í markmannshornið fyrir Gumma og hitti boltann frábærlega."
Thomas Mikkelsen spilaði sinn fyrsta leik fyrir Breiðablik í dag og skoraði fyrsta mark leiksins, Oliver hafði ekkert nema gott að segja um hæfileika hans.
„Frábær, hann hélt boltanum vel, var duglegur. Var orðinn þreyttur í lokin sem er skiljanlegt, langt síðan hann spilaði og frábært að hann skoraði."
Breiðablik er í 3.sætinu þremur stigum á eftir toppliðum Vals og Stjörnunnar og Oliver segir að þeir ætli sér klárlega að berjast um titilinn.
„Við erum í séns og erum með nógu gott lið til að vera þarna og ætlum að vera þarna, við erum með frábært lið."
Athugasemdir