Gareth Southgate landsliðsþjálfari Englands sendi frá sér yfirlýsingu rétt í þessu þess efnis að hann hafi tekið ákvörðun um að hætta með landsliðið. Hann er 53 ára gamall og núverandi samningur hans átti að renna út seinna á þessu ári.
England tapaði úrslitaleik Evrópumótsins gegn Spáni á sunnudaginn en það var hans 102 leikur við stjórnvölinn hjá enska landsliðinu á átta ára tímabili. Hann hafði tekið við eftir EM 2016 þar sem England féll út á EM eftir tap gegn Íslandi. Næsti keppnisleikur Englands verður einmitt gegn Heimi Hallgrímssyni og írska landsliðinu í Þjóðadeildinni í september.
„Sem stoltur Englendingur hefur mér verið heiður af því allt mitt líf að hafa spilað fyrir England og að hafa stýrt Englandi. Það hefur skipt mig öllu máli og gefið mér allt," svona byrjar yfirlýsing Southgate sem hann sendi út í gegnum enska knattspyrnusambandið (The FA) rétt í þessu.
„Núna er hinsvegar kominn tími á breytingar. Úrslitaleikurinn í Berlín á sunnudaginn gegn Spáni var síðasti leikur minn sem landsliðsþjálfari Englands."
„Ég samdi við The FA árið 2011 og var ákveðinn í að bæta enska fótboltann. Á þeim tíma, var ég í átta ár þjálfari karlalandsliðs Englands og hef notið stuðnings frábærs fólks sem fær frá mér hjartnæmar þakkir."
„Ég hefði ekki geta haft betri mann mér við hlið en Steve Holland. Hann er ein af hæfileikaríkustu þjálfurum sinnar kynslóðar og hefur verið mikilvægur hlekkur."
Athugasemdir