AC Milan er að ganga frá félagsskiptum spænska framherjans Álvaro Morata, sem kemur til félagsins frá Atlético Madrid.
Milan þarf ekki að greiða nema 13 milljónir evra fyrir Morata, sem er þegar búinn að gefa munnlegt samþykki fyrir fjögurra ára samningi.
Morata er 31 árs gamall og vann Evrópumótið á dögunum sem fyrirliði spænska landsliðsins.
Á síðustu leiktíð skoraði Morata 21 mark og gaf 5 stoðsendingar í 48 leikjum með Atlético, en hann er ekki í byrjunarliðsáformum Diego Simeone þjálfara fyrir næstu leiktíð.
Morata býr yfir reynslu úr ítalska boltanum eftir að hafa spilað með Juventus þar í landi. Í heildina kom hann að 98 mörkum með beinum hætti í 185 leikjum hjá Juve.
Hann verður arftaki Olivier Giroud í fremstu víglínu hjá Milan, en mun þó þurfa að berjast við Luka Jovic um sæti í byrjunarliðinu.
Milan hefur einnig verið orðað við Tammy Abraham, framherja AS Roma, og er ekki útilokað að félagið kræki einnig í hann til að auka samkeppnina um byrjunarliðssæti enn frekar.
Morata fer í læknisskoðun hjá Milan á morgun og skrifar undir samning áður en hann verður kynntur sem nýr leikmaður síðar í vikunni.
„Ég er búinn að kveðja liðsfélagana, Simeone og stjórnina. Það er betra að leiðir skilji þegar maður er ekki lengur upp á sitt besta. Ég er stoltur að hafa unnið EM sem leikmaður Atlético," sagði Morata meðal annars.
Athugasemdir