„Fyrir leik vildi ég koma hingað og vinna en ef þú hefðir boðið mér stig í hálfleik þá hefði ég tekið því miðað við stöðuna sem var þá. Fyrri hálfleikurinn var alls ekki góður," sagði Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar eftir 2 - 2 jafntefli við Vestra á Ísafirði í dag.
Lestu um leikinn: Vestri 2 - 2 Afturelding
„Ég er gríðarlega ánægður með karakterinn og liðsheildina hjá strákunum að snúa þessu við. Það var mikil trú í hópnum allan tímann að við myndum ná að snúa þessu við. Mér fannst eitt lið á vellinum allan síðari hálfleikinn og þetta verðskuldað að ná að jafna þennan leik. Vestri voru mjög öflugir varnarlega en við náðum að finna moment til að komast í gegnum þá og skora. Ég er gríðarlega ánægður með strákana og karakterinn í þeim í dag."
Staðan 2 - 0 í hálfleik fyrir Vestra og menn gerðu sig tilbúna til að spyrja Magga hvort það væri krísa með 2 stig úr fjórum leikjum, en má segja að seinni hálfleikurinn hafi bjargað þeim.
„Allir leikirnir eru erfiðir í þessari deild og við vissum alveg að það yrði erfitt að koma hingað. Fyrri hálfleikurinn var ekki boðlegur hjá okkur og við vissum það alveg. Þeir tóku sig bara saman í andlitinu og það var allt annað að sjá taktinn hjá okkur í seinni hálfleik. Þetta var eins og svart og hvítt fyrri og seinni. Ég hefði viljað spila aðeins lengur, bara ef það væru flóðljós hérna, spila 20 mínútur í viðbót því við vorum miklu betri og ef eitthvað lið átti að skora sigurmarkið vorum við líklegri fannst mér."
Nánar er rætt við Magga í spilaranum að ofan. Hann segir mikilvægt að vinna síðustu fimm leikina til að komast upp og telur liðið geta gert það. Það skipti þá engu máli hvað aðrir gera.























