Getum sigrað bestu liðin bæði heima og úti
Bukayo Saka er kominn úr meiðslum og stóð sig vel í báðum leikjum Arsenal gegn Real Madrid í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Arsenal mætti þar einu af allra bestu liðum fótboltaheimsins og skóp þægilegan 5-1 sigur samanlagt, 3-0 heima og 2-1 úti.
Saka var í aðalhlutverki í gærkvöldi þegar Arsenal vann útileikinn. Hann klúðraði vítaspyrnu snemma og skoraði svo fyrsta mark leiksins í frábærum sigri á Santiago Bernabéu.
„Við getum sigrað bestu lið Evrópu bæði heima og úti, þið sáuð það í kvöld," sagði Saka meðal annars eftir sigurinn.
„Ég vil trúa því að við getum unnið þessa keppni. Ég held að við getum sigrað."
Arsenal tekur á móti Paris Saint-Germain í undanúrslitaleik 29. apríl. Seinni leikurinn fer fram á Parc des Princes 7. maí.
Inter spilar við Barcelona í hinum undanúrslitunum.
„Ég reyndi eitthvað sem virkaði ekki, en ég var samt ennþá sannfærður um að ég myndi skora. Ég hélt áfram að spila minn leik og tókst að setja boltann í netið í seinni hálfleik," sagði Saka um vítaspyrnuklúðrið sitt og markið.
„Við mættum grimmir til leiks. Við vorum búnir að fylgjast með samfélagsmiðlum þar sem fólk talaði um endurkomu Real Madrid. Okkur tókst að sýna öllum hversu sterkt hugarfar við erum með."
Athugasemdir