
„Mér finnst 3-0 ekki segja rétt til um hvernig leikurinn var. Við vorum að berjast og fengum alveg færi. Það komu tvö mörk sem að við hefðum auðveldlega getað komið í veg fyrir þannig að 3-0 segir ekki alveg til um hvernig leikurinn spilaðist,” sagði Ruth Þórðar fyrirliði Fylkis eftir 3-0 tapið gegn Stjörnunni í kvöld.
Lestu um leikinn: Fylkir 0 - 3 Stjarnan
„Við ætluðum að vera þéttar varnarlega og sækja hratt. Berjast og vinna fyrsta og annan bolta. Það gekk vel. Við fengum eitt mark á okkur í fyrri hálfleik og komum sterkar út í seinni en svo fáum við á okkur tvö skítamörk,” sagði Ruth en Fylkiskonur voru ískaldar aftast og notuðu rangstöðutaktík gegn Hörpu Þorsteinsdóttur, skæðasta sóknarmanni deildarinnar.
„Það virkaði ágætlega. Vörnin var þétt og línan hélt þannig að þetta gekk ágætlega.”
Fylkisliðið dettur niður í 7. sæti eftir leiki kvöldsins og er því komið í bullandi botnbaráttu. Ruth segir mikilvægt að liðið hali inn fleiri stig ætli það að halda sér í deild þeirra bestu.
„Við þurfum á öllum stigum að halda sem eru í boði og við bara bætum ofan á þennan leik og gerum ennþá betur. Við verðum að fara að sækja stig ef við ætlum að halda okkur í þessari deild.”
Athugasemdir