Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 17. ágúst 2022 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
36 ára Gyan vill fara á sitt fjórða HM með Gana
,,Ganverjar vilja hefnd"
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Asamoah Gyan, 36 ára, er spenntur fyrir HM í Katar og ætlar að gera sitt besta til að koma sér í stand og reyna að fara með landsliði Gana á mótið í fjórða sinn.


Gyan býr yfir gífurlegri reynslu með landsliði Gana en hefur ekki spilað landsleik í þrjú ár, með 107 leiki að baki í heildina. Hann hefur ekki spilað keppnisleik í fótbolta í rúmt ár og hefur verið mikið fjarverandi undanfarin ár vegna meiðsla.

Hann telur sig þó vera kominn yfir meiðslavandræðin og vonast til að komast að hjá fótboltaliði og sanna sig á næstu mánuðum til að komast á HM. 

„Ég veit að hæfileikarnir eru til staðar, ég þarf bara að koma mér í fullkomið líkamsstand. Það er draumur að spila á HM og ég tel mig hafa nægilega mikla orku eftir fyrir það. Ég hef verið fjarverandi vegna meiðsla í tvö ár og er að vinna í að koma líkamanum aftur í stand. Ég verð að sjá hvernig líkaminn bregst við að spila fótbolta og svo sjáum við til," sagði Gyan, sem verður 37 ára í nóvember.

Gyan nefndi Roger Milla sem fordæmi en hann spilaði með Kamerún á HM 1990 og 1994 - þegar hann var 38 og 42 ára gamall.

Hann segist þó ekki hafa rætt við neinn innan landsliðsins um mögulega endurkomu. Otto Addo, fyrrum liðsfélagi Gyan í landsliðinu, er þjálfari liðsins í dag með Chris Hughton sem tæknilegan ráðgjafa.

Þá eru leikmenn á borð við Tariq Lamptey og Inaki Williams í landsliðshópnum.

„Ég ætla ekki að tala við neinn fyrr en ég sé hvernig líkaminn minn bregst við. Ef mér líður eins og ég geti höndlað þetta þá er aldrei að vita hvað gerist."

Gyan skoraði 51 mark fyrir Gana og er enn þann dag í dag markahæsti afríski leikmaður í sögu HM með sex mörk sem hann skoraði yfir þrjú mót.

Gana er í riðli með Úrúgvæ og bætti Gyan því við að hann sé sérstaklega spenntur fyrir mótinu útaf þeirri viðureign. Hann sé enn í hefndarhug frá því 2010 þegar Luis Suarez fékk rautt spjald fyrir að verja með hendi á marklínu í framlengingu.

Gyan steig á vítapunktinn en skaut í slánna og fagnaði Suarez dátt á hliðarlínunni enda orðinn hetja í heimalandinu fyrir þessa markvörslu. Leikurinn fór í vítaspyrnukeppni og stóðu tíu leikmenn Úrúgvæ uppi sem sigurvegarar en Suarez var í leikbanni í undanúrslitunum.

„Allur heimurinn veit hvað gerðist í þessum leik. Fyrsta sem ég fékk í hugann þegar ég sá riðilinn var hefnd. Ganverjar vilja hefnd."


Athugasemdir
banner