Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 17. september 2020 21:38
Fótbolti.net
Einkunnagjöf Íslands: Dagný best
Icelandair
Dagný var frábær og skoraði þrennu í fyrri hálfleik
Dagný var frábær og skoraði þrennu í fyrri hálfleik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland valtaði yfir Lettland með níu mörkum gegn engu fyrr í kvöld. Þetta var leikur kattarins að músinni og einkunnirnar bera þess merki. Allar í íslenska liðinu áttu framúrskarandi leik en það mæddi töluvert minna á markmanni og miðvörðum en öðrum leikmönnum liðsins.

Hér að neðan má sjá einkunnagjöf Fótbolta.net fyrir leikinn:




Sandra Sigurðardóttir 6
Sandra gerði allt rétt en fékk einfaldlega ekki nóg að gera til að hækka einkunnina.

Hallbera Guðný Gísladóttir 7
Það reyndi lítið á hana varnarlega en eins og alltaf tók hún mikinn þátt í sóknarleiknum og kom með þó nokkra hættulega bolta inn á teiginn fyrir liðsfélaga sína.

Glódís Perla Viggósdóttir 7
Auðveldur leikur hjá henni, virkilega örugg á boltanum og dreifði spilinu í vörninni.

Ingibjörg Sigurðardóttir 6 ('56)
Rólegur leikur hjá henni eins og öðrum í vörninni. Fór af velli snemma í síðari hálfleik vegna meiðsla en það leit ekki út fyrir að vera alvarlegt.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir 8
Byrjaði í bakverðinum og átti frábæran fyrri hálfleik, vann vel til baka og var eldsnögg upp kantinn til að taka þátt í sóknarleiknum. Fór inn á miðjuna í seinni og var minna áberandi.

Alexandra Jóhannsdóttir 8
Frábær leikur, lagði upp fjórða mark leiksins og skoraði. Var með bestu mönnum vallarins fyrsta hálftímann en missti aðeins dampinn þegar leið á leikinn. Vann sig hægt og örugglega aftur inn í leikinn og kláraði með glæsilegu marki.

Sara Björk Gunnarsdóttir 7 (69')
Oft verið meira að gera hjá fyrirliðanum sem komst ágætlega frá sínu hlutverki.

Dagný Brynjarsdóttir 9 ('45) - Maður leiksins
Nánast fullkomin leikur hjá Dagný sem skoraði þrjú glæsileg mörk og var auk þess lykilmaður í spilinu í gegnum miðjuna. Besti maður vallarins á meðan hún var inn á en fór útaf í hálfleik þar sem hún er að jafna sig á meiðslum og mikilvægur leikur gegn Svíum framundan.

Sveindís Jane Jónsdóttir 8
Frábær frumraun hjá henni, átti sérstaklega góðan fyrri hálfeik þar sem hún skoraði tvö frábær mörk og var sífellt ógnandi.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir 8
Átti stórhættulegar fyrirgjafir, sérstaklega í fyrri hálfleik. Lagði upp tvö mörk og skoraði eitt.

Elín Metta Jensen 7
Oft séð meira frá Elínu, hafði lítið pláss til að athafna sig frammi en skilaði sínu hlutverki ágætlega.

Barbára Sól Gísladóttir 7 (45')
Ágætis frumraun, virkaði svolítið stressuð fyrstu mínúturnar en vann sig svo inn í leikinn. Átti frábæra sendingu að markinu þegar Karlina Miksone skoraði sjálfsmark og bætti svo um betur með annarri stoðsendingu stuttu síðar.

Guðný Árnadóttir 6 (56')
Lítið að gera hjá henni eins og öðrum í vörninni en gerðist ekki sek um nein stórvægileg mistök.

Hlín Eiríksdóttir 7 (69')
Kom með kraft inn í seinni hálfleikinn sem var það sem liðið þurfti, lagði upp síðasta markið og átti heilt yfir fína innkomu.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner