Breiðablik þurfti að sætta sig við tap gegn Val í vítaspyrnukeppni í leik liðanna í Meistara meistaranna sem fram fór á Origo-vellinum í dag. Markalaust var eftir venjulegan leiktíma.
Lestu um leikinn: Valur 4 - 2 Breiðablik
„Þetta var eins og við vissum, hörkuleikur milli tveggja góðra liða. Þegar líða fór á leikinn þá fannst mér Valur hafa yfirhöndina og fá fleiri færi og það lá aðeins á okkur. En stelpurnar börðust vel og lögðu allt í þetta. Það var á endanum sterkt hjá okkur að halda hreinu. Svo hefðum við getað stolið þessu í restina," sagði Ásmundur Arnarsson þjálfari Breiðabliks.
„Það er gaman að spila við Val loksins. Það er langt síðan þessi lið hafa mæst og gefur okkur smá vísbendingar og upplýsingar fyrir sumarið."
Ásmundur viðurkennir að hann hafi viljað sjá meiri sóknarþunga í leik liðsins í dag en liðið fékk fá færi til að skora í leiknum.
„Auðvitað hefði maður viljað það. Við vissum svosem að þetta yrði pínu erfitt. Við vorum að spila með nokkra leikmenn útúr stöðum. Það er kannski eðlilegt að þetta hafi ekki verið allt smurt," sagði Ásmundur.
Athugasemdir