Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   fim 18. júlí 2024 18:30
Brynjar Ingi Erluson
Ólíklegt að Skipp fái að fara frá Tottenham í sumar
Oliver Skipp
Oliver Skipp
Mynd: EPA
Nýliðar Leicester City hafa áhuga á því að fá enska miðjumanninn Oliver Skipp frá Tottenham, en ólíklegt er að félagið leyfi honum að fara í þessum glugga.

Skipp er 23 ára gamall og uppalinn hjá Tottenham, en ekki átt fast sæti í liðinu síðan hann lék sinn fyrsta leik fyrir fimm árum síðan.

Hann lék aðeins 806 mínútur í 24 leikjum í öllum keppnum á síðustu leiktíð og farinn að skoða það að fara til að fá meiri spiltíma.

Leicester City, sem vann B-deildina á síðasta tímabili, hefur mikinn áhuga á að fá hann í glugganum, en það er þó talið ólíklegt að Tottenham leyfi honum að fara.

Tottenham þarf að hafa fjóra uppalda leikmenn í Evrópudeildarhópnum fyrir komandi leiktíð og þar kemur mikilvægi Skipp inn í dæmið.

Japhet Tanganga yfirgaf félagið á dögunum og þá fóru þeir Harry Kane og Harry Winks á síðasta ári. Tottenham er með markverðina Alfie Whiteman og Brandon Austin, en það verður að bíða og sjá hvort félagið muni nota Will Lankshear og Mikey Moore á komandi leiktíð.

Tottenham hefur fengið Lucas Bergvall og Archie Gray á miðsvæðið og þá er félagið orðað við Conor Gallagher, leikmann Chelsea og Jacob Ramsey, leikmann Aston Villa.

Eins og staðan er í dag verður Skipp áfram en spiltími hans verður afar takmarkaður miðað við breiddina sem er að skapast á miðsvæði félagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner