Spænski framherjinn Álvaro Morata yfirgaf Atlético Madrid á frjálsri sölu síðasta sumar þrátt fyrir mikinn áhuga frá Diego Simeone þjálfara Atléti.
Morata hafði verið mikilvægur hlekkur í liði Atlético tvö tímabil í röð áður en hann ákvað að yfirgefa félagið til að skipta yfir til AC Milan í ítalska boltanum.
Hann byrjaði vel hjá Milan en sú velgengni var ansi skammlíf. Hann átti afar erfitt uppdráttar hjá sínu nýja félagi eftir að hafa skorað í fyrstu leikjunum og var að lokum lánaður burt í janúarglugganum, til Galatasaray í Tyrklandi.
Morata hefur skorað 3 mörk í fyrstu 6 leikjum sínum á láni hjá Galatasaray og sér mikið eftir því að hafa farið til Milan á frjálsri sölu síðasta sumar.
„Ef ég gæti farið aftur í tímann þá myndi ég gera það. Ég myndi vera áfram hjá Atlético Madrid," segir Morata. „Ég tók ranga ákvörðun síðasta sumar en núna þýðir ekkert að hugsa um þetta. Þetta er búið og gert.
„Faðir minn og umboðsmaðurinn sögðu báðir við mig að þetta væru mistök. Ég hefði átt að hlusta."
Morata er 32 ára gamall og vann EM með Spáni í fyrra. Hann gerði langtímasamning við Milan sem gildir til sumarsins 2028 og er á láni hjá Galatasaray til janúar 2026, með kaupmöguleika.
Athugasemdir