Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fös 19. júlí 2024 14:30
Elvar Geir Magnússon
Ten Hag segir frá opinskáum hitafundi á Ibiza
Ten Hag á hliðarlínunni.
Ten Hag á hliðarlínunni.
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Erik ten Hag hefur sagt frá opinskáum fundi sem hann átti með stjórnendum Manchester United á spænsku eyjunni Ibiza. Þar hafi framtíð sín verið ákveðin og rætt á hreinskilinn hátt um stefnu og framtíð.

Ten Hag segir að sín hugsun hafi verið sú að ef menn næðu ekki samkomulagi þá þyrftu leiðir að skilja.

Sir Jim Ratcliffe ber ábyrgð á fótboltahluta United en ýmsir möguleikar voru skoðaðir og ræddir áður en ákveðið var að halda Ten Hag og framlengja samning hans til 2026.

„Í stuttu máli sögðust þeir hafa skoðað allar hliðar og talið sig þegar vera með besta kostinn í stjórastólnum hjá sér," segir Ten Hag við hollenska dagblaðið Algemeen Dagblad.

„Þá sagði ég að við þyrftum að fara yfir nokkra hluti, hvernig við ætluðum að hátta samskiptum og samvinnu. Við áttum gott, opinskátt og heiðarlegt samtal. Það voru líka átök, eins og það að á að vera."

„Ég gaf mína sýn á síðasta tímabil og stöðuna hjá United. Ég fór yfir það hvaða leið væri best að mínu mati. Ég sagði þeim líka að ef þeir væru algjörlega ósammála því þá væri best að við færum í sitthvora áttina."

Manchester United endaði í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og komst ekki upp úr riðli sínum í Meistaradeildinni. Tímabilið endaði þó á sigri í úrslitaleik FA-bikarsins.

Ten Hag þurfti að glíma við rúmlega 60 meiðsli og mismunandi vandamál utan vallar. Til dæmis varðandi Mason Greenwood, Jadon Sancho og Antony. Ten Hag segir að þetta hafi verið „lang erfiðasta tímabil“ sem hann hafi upplifað sem þjálfari.

„Meiðslin höfðu ekkert með álag á æfingum mínum að gera því hér æfir þú og spilar á þriggja daga fresti. Þegar þú skoðar dagskrána sem við áttum, 61 leikur, án þess að telja alla leikina sem leikmenn mínir spiluðu fyrir landsliðin sín - þá er þetta algjört brjálæði. Þetta er of mikið. Það er eiginlega of mikið," segir Ten Hag.
Athugasemdir