Kvennalandsliðið á framundan leik gegn Hollandi á þriðjudag. Það er fyrsti leikur liðsins í undankeppni HM.
Það er ekkert smá verkefni að mæta Hollandi í fyrsta leik. Það er ógnarsterkt lið. Hollendingar spiluðu sinn fyrsta leik í undankeppninni gegn Tékklandi í síðustu viku og gerðu þar 1-1 jafntefli.
Það er því alls ekki útilokað fyrir Ísland að fá eitthvað úr þessum leik á þriðjudag.
„Ég held við eigum eftir að mátast vel á móti þeim. Við erum með flotta varnarlínu og góðar varnarlega, en líka sterkar sóknarlega," sagði Alexandra Jóhannsdóttir, miðjumaður landsliðsins, á fréttamannafundi í dag.
„Þær eru ekkert ósigrandi þetta lið. Við getum allt á móti þeim," sagði miðjumaðurinn jafnframt.
Þetta verður fyrsti keppnisleikurinn undir nýjum þjálfara, Þorsteini Halldórssyni. „Við lúkkum vel. Þetta er að smella saman finnst mér. En svo kemur að leiknum og þá sjáum við hvernig það verður. Þessi æfingavika er búin að vera góð. Við þekkjum allar hvor aðra. Það er ekkert nýtt þar."
„Við erum spenntar að fá alvöru leik. Það er gott að fá æfingaleikina en maður er í þessu fyrir þessa leiki."
Beitum nokkrum skyndisóknum og skorum mörk
Sóknarmaðurinn Sveindís Jane Jónsdóttir sat einnig fyrir svörum á fréttamannafundinum. Hún býst við erfiðum leik gegn Hollandi á þriðjudag.
„Það er ógeðslega gaman að mæta þessum stelpum; það eru frábærir leikmenn í þessu hollenska liði. Við ætlum bara að spila okkar leik. Gera það sem við erum góðar í; verjast vel og svo beitum við nokkrum skyndisóknum og skorum mörk, það er það sem við ætlum að gera," sagði Sveindís.
Athugasemdir