Aleksandar Mitrovic, sóknarmaður Fulham og serbneska landsliðsins, er orðinn heill og klár í slaginn fyrir Heimsmeistaramótið sem hefst í Katar á morgun.
Töluvert hefur verið rætt og ritað um Mitrovic en síðasti keppnisleikur hans kom þann 29. október gegn Everton í ensku úrvaldeildinni. Hann hafði átt við smávægileg meiðsli að stríða þar á undan en spilaði þrátt fyrir það.
Sumir fjölmiðlar í Serbíu gengu svo langt um daginn að segja að hann yrði ekki klár í fyrsta leik Serba sem verður gegn Brasilíu á fimmtudaginn kemur í G-riðli.
Kappinn var ekki með í æfingaleik í gær þegar Serbía vann 5-1 sigur á Bahrain en hann var tekinn í viðtal í dag þar sem hann fór yfir stöðuna.
„Ef ég væri ekki klár þá væri ég ekki í hópnum. Ég er tilbúinn, ég klára endurhæfinguna eftir 1-2 daga og það er allt í góðum málum," sagði Mitrovic.
Hann var spurður að því hvort það muni hafa mikil áhrif á hann á mótinu að hann sé ekki búinn að spila keppnisleik í nokkrar vikur og ekki náð að æfa á fullu.
„Það mun ekki hafa áhrif. Hjá Fulham æfði ég lítið þegar ég fann fyrir meiðslunum en ég var með á æfingu deginum fyrir leik í taktíska upplegginu. Ég er kominn á þann aldur að ég veit hvernig ég get stjórnað álaginu, hvenær ég get sparað mig og hvenær ekki."
„Mér líður mjög vel líkamlega og undanfarið hef ég mikið unnið í einstaklingsbundnum æfingum. Þetta verður ekki vandamál," sagði Serbinn.
Dusan Vlahovic, sóknarmaður Juventus, er einnig klár í slaginn en hann er búinn að vera frá í nokkrar vikur vegna meiðsla í nára. Hann skoraði og lagði upp mark í sigrinum á Bahrain í gær.
Sjá einnig:
Mitrovic og Vlahovic í serbneska hópnum þrátt fyrir meiðsli