Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
banner
   þri 20. febrúar 2024 15:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Heyrði það á henni hvernig hún sagði 'hæ' að þetta væru ekki góðar fréttir"
Arna Sif spilar ekki meira á árinu
Arna Sif Ásgrímsdóttir.
Arna Sif Ásgrímsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erfið tíðindi að fá.
Erfið tíðindi að fá.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arna var besti leikmaður Íslandsmótsins í fyrra þegar Valur varð Íslandsmeistari.
Arna var besti leikmaður Íslandsmótsins í fyrra þegar Valur varð Íslandsmeistari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á landsliðsæfingu.
Á landsliðsæfingu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Í leik með Val síðasta sumar.
Í leik með Val síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Auðvitað verð ég stuðningsmaður númer eitt. Ég hef engar áhyggjur, ég held að þetta verði frábært sumar á Hlíðarenda og það verður gaman að vera partur af því þó maður sé í öðruvísi hlutverki'
'Auðvitað verð ég stuðningsmaður númer eitt. Ég hef engar áhyggjur, ég held að þetta verði frábært sumar á Hlíðarenda og það verður gaman að vera partur af því þó maður sé í öðruvísi hlutverki'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arna Sif Ásgrímsdóttir, besti leikmaður Bestu deildar kvenna í fyrra, varð fyrir því óláni á dögunum að slíta krossband. Hún mun því ekkert spila meira fótbolta í ár.

Arna meiddist í leik gegn Fylki í Lengjubikarnum í síðustu viku og kom svo í ljós að hún er með slitið krossband og rifinn liðþófa. Þetta er auðvitað mikið högg fyrir Íslandsmeistara Vals en Arna hefur verið algjörlega frábær í Bestu deildinni undanfarin ár.

„Í minningunni fannst mér ekkert merkilegt gerast. Ég er að stíga upp með senternum og ætla að pikka öðrum fæti fram fyrir hana. Ég stíg þá í vinstri og þá kemur smellur utan á hnéð. Ég er búinn að skoða þetta á myndbandi og það kemur smá slinkur á hnéð þegar ég er að teygja mig," segir Arna í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Um leið og maður heyrir smellinn þá kemur upp varnarviðbragð í líkamanum og þá taka allir vöðvar við. Ég festist með hnéð bogið og ég gat ekki rétt úr fætinum fyrr en ég var búin að róa mig niður. Mig grunaði að þetta væri eitthvað mikið. Ég er búin að heyra margar nákvæmlega svona sögur. Það eru margir í kringum mann sem hafa slitið og lýsingin er alltaf eins; það kemur alltaf smellur og það læsist. Ég fékk tilfinningu fyrir því að þetta væri alvarlegt."

Biðin mjög erfið
Arna fór beint upp á slysamóttöku eftir að hún meiddist, en hún þurfti að bíða í tæpa tvo daga eftir niðurstöðu. Biðin var auðvitað mjög erfið.

„Ég fór beint upp á slysó. Eins og gengur og gerist, þá þarf maður að bíða ansi lengi þarna. Ég var þarna í einhverja sex tíma áður en kíkt var á mig. Við vissum að við vorum ekki að fá hreina niðurstöðu þar. Ég fór í röntgen til að útiloka beinbrot. Það var ekkert að sjá þar. Það var svo daginn eftir þar sem ég fæ að fara í segulómun. Niðurstöðurnar eru svo komnar á föstudagsmorgninum," segir miðvörðurinn öflugi.

„Biðin var bara hræðileg. Á slysó sat ég í sex tíma með hugsunum mínum. Maður var alveg búin að búa til alls konar útkomur úr þessu og hvað maður myndi gera ef þetta færi á versta veg. Eins hugsaði maður að þetta þyrfti ekki að vera neitt alvarlegt. Ég var óþolinmóð á fimmtudaginn eftir að ég var búin í segulómun. Ég vildi helst fá niðurstöður einn, tveir og bingó. Þetta gerist nú samt alveg hratt og ég er mjög þakklát fyrir það. En biðin var alveg ægilega erfið."

Heyrði það á henni
Arna fékk símtal frá sjúkraþjálfara sínum á föstudagsmorgun í síðustu viku og vissi það strax að hún væri að fá erfiðar fréttir.

„Sjúkraþjálfarinn minn hringir í mig og ég heyrði það á henni hvernig hún sagði 'hæ' að þetta væru ekki góðar fréttir. Hún náði að spjalla við mig um það hvernig ég hefði það og svo sagði hún við mig að þetta væru ekki góðar niðurstöður. Þá vissi ég alveg nákvæmlega hvað þetta var og þá brotnaði ég alveg niður," segir Arna.

„Ég er gríðarlega heppin með fólkið í kringum mig og ég hef fengið ótrúlega fallegar og hlýjar kveðjur. Ég er líka einstaklega heppin með liðið mitt og félagið mitt. Ég fæ ótrúlega mikinn stuðning frá liðinu og félaginu sem er ómetanlegt. Það er verið að reyna að gera það besta úr þessu."

Langt og strangt ferli framundan
Hún býst við að vera frá í eitt ár að minnsta kosti.

„Þetta er alltof algengt og maður er mjög oft að sjá leikmenn út í heimi koma til baka eftir níu mánuði. Þær eru yfirleitt að meiðast aftur, lenda í bakslögum. Ég held að það sé orðið venjulegt að þú sért frá í ár. Frá aðgerð eru þetta tólf mánuðir og því lengur sem þú bíður, því betra," segir Arna.

„Það er mjög langt og strangt ferli sem er framundan. Ég veit ekki beint hvað ég er að fara út í en ég er komin með aðgerðartíma; ef allt gengur upp að ná hreyfigetunni og bólgunni úr, þá ætti ég að komast í aðgerð fljótlega í mars. Svo er þetta mjög langt ferli. Ég þarf nánast að læra að ganga aftur og svo ertu að styrkja og styrkja. Ég þarf að vaxa inn í það. Ég er búin að gúggla og skoða allt sem ég mögulega get gert. Þetta verður alvöru verkefni."

„Blessunarlega hef ég verið mjög heppin með meiðsli. Ég hef einu sinni ristarbrotnað og einu sinni rifið kálfa. Þetta er það alvarlegasta sem ég hef lent í og það að þetta taki ár frá manni er galið. Þetta er svo langur tími."

Alls konar tilfinningar sem fylgja
Arna segir að það séu alls konar tilfinningar sem fylgi því að lenda í svona erfiðum meiðslum.

„Ég er búin að vera alveg út um allt. Fyrstu dagana er maður eiginlega bara að syrgja tímabilið sem var búið áður en það kom. Það eru alls konar tilfinningar sem fylgja; þetta er ógeðslega langur tími og það er hræðsla að vera ekki partur af liðinu og geta ekki hjálpað liðinu því við ætlum okkur stóra hluti í sumar. Þetta átti að vera árið þar sem ég ætlaði gjörsamlega að kýla á það og setja allt annað á bið. Þessu fylgja rosalega mikil vonbrigði," segir miðvörðurinn.

„Svo líða dagarnir og maður er aðeins að ná að sætta sig við þessa stöðu. Það er mikilvægt að viðhorfið verði jákvætt. Í öllu mótlæti er einhver fegurð, lærdómur og þroski. Þannig langar mér að horfa á þetta og ég ætla að reyna að gera það. Þetta er kannski tækifæri til að vinna í ákveðnum hlutum, vaxa, þroskast og laga. Það eru alveg hlutir sem ég hefði mátt sinna meira, hvað líkamann varðar. Ég hef kannski alltaf hlustað á það sem líkaminn þarf og þetta er kannski tækifæri til að vaxa þarf."

Valur er ríkjandi Íslandsmeistari og núna verður Arna stuðningsmaður númer eitt hjá liðinu.

„Mér líst ótrúlega vel á sumarið sem er framundan hjá liðinu. Markmiðin eru háleit og ég held að við séum á ótrúlega góðum stað með ótrúlegan flottan hóp til að ná þeim markmiðum. Þó ég verð ekki inn á vellinum, þá mun ég gera allt sem ég get til að hjálpa og gefa af mér. Ég verð til staðar. Auðvitað verð ég stuðningsmaður númer eitt. Ég hef engar áhyggjur, ég held að þetta verði frábært sumar á Hlíðarenda og það verður gaman að vera partur af því þó maður sé í öðruvísi hlutverki. Ég treysti á að þær negli þetta sumar," sagði hún að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner