Aston Villa og Man Utd gætu skipst á leikmönnum - Onana falur fyrir 20 milljónir punda - Isak fer ekki frá Newcastle
   sun 20. apríl 2025 12:53
Brynjar Ingi Erluson
Ákvörðun Man City kom De Bruyne í opna skjöldu - „Áttum ekki langt samtal“
Kevin de Bruyne
Kevin de Bruyne
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
De Bruyne fer eftir tímabilið
De Bruyne fer eftir tímabilið
Mynd: Manchester City
Kevin de Bruyne, leikmaður Manchester City á Englandi, segir að félagið hafi tekið ákvörðun um að bjóða honum ekki nýjan samning og að það hafi komið honum verulega á óvart.

De Bruyne á risastóran þátt í velgengni Man City síðasta áratuginn og verið einn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar á tíma sínum hjá félaginu.

Belgíski landsliðsmaðurinn segir að félagið hafi boðað hann á fund og tjáð honum að hann fengi ekki nýjan samning eftir þetta tímabil.

Txiki Begiristain, yfirmaður fótboltamála og Ferran Soriano, framkvæmdastjóri Man City, sátu fundinn með De Bruyne, en Pep Guardiola var ekki viðstaddur. Hann vissi þó af ákvörðun stjórnarinnar.

„Þetta var svolítið sjokk. Ég fékk ekki eitt einasta tilboð frá félaginu allt árið og svo tók það ákvörðun. Auðvitað kom það mér í opna skjöldu, en ég verð að taka því. Ég tel mig enn geta staðið mig á þessu stigi, eins og ég hef verið að sýna, en ég skil að félög þurfa að taka ákvarðanir,“ sagði De Bruyne.

„Mér finnst þetta ekkert óþægilegt. Ég sagði þeim að ég ætti enn nóg til að gefa. Ég veit að ég er ekki lengur 25 ára, en mér líður eins og ég geti enn sinnt starfinu.“

De Bruyne mun skoða framtíð sin á næstu vikum en hann hefur verið orðaður við félög í Bandaríkjunum og Sádi-Arabíu.

„Ég er opinn fyrir hverju sem er því ég verð að horfa á heildarmyndina. Ég er með íþróttalegar ástæður, fjölskylduna og allt annað í huga þegar það kemur að næsta skrefi ferilsins. Mér finnst ég enn geta spilað á góðu stigi, en ég verð að taka ákvörðun þegar ég veit aðeins meira.“

Tímabilið hefur verið Man City eriftt. Liðið fór aldrei í neina titilbaráttu og datt út í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, en De Bruyne veltir fyrir sér hvort staðan væri önnur hefði liðið ekki verið að ganga í gegnum erfiðleika.

„Ef liðið væri ekki að ganga í gegnum erfiðleika og ég kæmi til baka eins og ég hef gert á þessu ári þá hefðu þeir kannski tekið aðra ákvörðun. Ég veit það annars ekki. Þeir greindu mér frá ákvörðuninni og ég get í raun ekki sagt hverjar pælingar þeirra eru. Mér finnst ég enn vera í góðu standi og spilað meira en ég gerði á síðasta ári fyrir utan kviðslitin. Mér líður vel og takturinn er að koma.“

„Ég vil ekki alveg deila því (ástæðunni fyrir því að hann fékk ekki nýjan samning) þar sem þetta var meira viðskiptaleg ákvörðun fyrir félagið og ákvörðunin í samræmi við það. Samtalið var ekki langt. Þeir sögðu mér þetta bara og svo var því lokið. Ég verð að sætta mig við stöðuna þó ég tel mig enn geta gert góða hluti, en svona er þetta,“
sagði De Bruyne.
Athugasemdir
banner
banner