Rui Costa, forseti portúgalska félagsins Benfica, hefur staðfest að félagið sé í viðræðum um að fá Joao Felix og Renato Sanches aftur heim.
Felix og Sanches eru báðir uppaldir hjá Benfica, en Sanches var seldur árið 2016 til Bayern München á meðan Felix var seldur fyrir metfé eða 126 milljónir evra til Atlético Madríd árið 2019.
Benfica vinnur nú hörðum höndum að því að fá þá aftur heim til félagsins.
Sanches er 26 ára gamall miðjumaður sem er á mála hjá Paris Saint-Germain í Frakklandi, en þær viðræður ættu að vera tiltölulega auðveldar.
Félagaskipti Felix eru flóknari en Rui Costa staðfesti viðræður um báða leikmenn. Hann ekki tjáð sig frekar um leikmennina, en þessi mál ættu að skýrast á næstunni.
Báðum leikmönnum var spáð stórkostlegu gengi í stærstu deildum Evrópu, en þeir hafa ekki náð að lifa upp til þeirra væntinga. Síðustu tvö ár hefur hinn 24 ára gamli Felix verið á láni hjá Chelsea og Barcelona á meðan Sanches hefur flakkað á milli félaga.
Athugasemdir