Breiðablik tók á móti ÍBV fyrr í dag í 17. umferð Bestu deildarinnar og ljóst var að mikilvægir 3 punktar voru í boði fyrir bæði lið. Liðin eru að berjast á sitthvorum enda töflunnar, Blikarnir í toppbaráttunni og ÍBV í fallbaráttunni.
Lestu um leikinn: Breiðablik 0 - 0 ÍBV
„Þetta er vond tilfinning og mikið svekkelsi“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Blika, eftir leikinn sem endaði 0-0 þrátt fyrir stöðugar tilraunir Blika á mark ÍBV.
„Þegar að þú sækir 90% af leiknum og ert inn í teig, þú ert alltaf hræddur við einn langan bolta sem dettur í gegn hinum megin en á meðan þú nærð ekki að brjóta ísinn að þá er þetta allt í járnum. Það vantaði rosalega lítinn herslumun til þess að rúlla boltanum yfir línuna“ hélt hann svo áfram en Blikar fengu aragrúa af færum í leiknum.
Fyrir leikinn í dag höfðu Blikar spilað tvo leiki þar sem frammistaðan var ekkert sérstök. Aðspurður hvort að hann hafi ekki verið ánægður með frammistöðuna í dag segir hann:
„Það er það sem við verðum að grípa í í dag. Ég er sammála, frammistaðan ekki verið góð í síðustu tveimur leikjum en hún var fín í dag. Sóttum án afláts og vörðumst vel sem lið og það var heildarbragur yfir þessu og fullt af jákvæðum hlutum sem við getum tekið með okkur inn í baráttuna í framhaldinu.“
Viðtalið við Ása má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan