sun 21. febrúar 2021 23:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hemmi telur Man Utd á réttri leið - Aldrei ánægður að sjá Martial inn á
Anthony Martial.
Anthony Martial.
Mynd: Getty Images
Hermann Hreiðarsson, leikjahæsti Íslendingurinn í ensku úrvalsdeildinni, segir að Manchester United sé á réttri leið undir stjórn Ole Gunnar Solskjær.

Man Utd vann 3-1 sigur á Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en Hermann var sérfræðingur í Vellinum á Síminn Sport eftir leikinn.

„Liðið er á réttri leið. Þetta var ekki besti leikur United en samt var þetta þægilegt. Það vantar tvo, þrjá leikmenn," sagði Hermann sem heldur ekki sérlega mikið upp á Anthony Martial, sóknarmann Man Utd.

„Ég er aldrei ánægður þegar ég sé Martial inn á. Ég verð að viðurkenna það. Ég hef aldrei séð hann brosa og hann fær að vera í þessari treyju í hverri viku."

„Hann þarf að fara og kannski einn, tveir í viðbót. Liðið er samt á réttri leið, það er engin spurning."

Martial hefur ekki riðið feitum hesti á þessu tímabili. Hann er búinn að skora fjögur mörk í 20 deildarleikjum og hefur verið gagnrýndur fyrir vinnuframlag sitt í leikjum.

Man Utd er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tíu stigum á eftir nágrönnum sínum í Manchester City.
Athugasemdir
banner
banner