
„Þetta var bara helvíti svekkjandi ef ég má segja það," sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir leikmaður Íslands eftir markalaust jafntefli við Sviss í Þjóðadeildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Sviss 0 - 0 Ísland
„Við áttum fleiri færi en þær, mjög mörg föst leikatriði sem við erum vön að klára en þetta tókst ekki í dag. Stundum eru leikirnir þannig og við verðum bara að halda áfram," hélt hún áfram.
Hvernig fannst þér leikurinn heilt yfir?
„Mér leið bara vel, mér fannst við komast í góðar sóknir, það vantaði kannski gæðin í slúttin og síðustu sendinguna. Við vorum heilt yfir betri og við verðum bara að byggja ofan á þetta."
Fannst þér aldrei í leiknum að þetta væri bara svona leikur sem allt væri stöngin út?
„Nei, ég hef alltaf þessa trú að við skorum. Við skorum í nánast hverjum einasta leik og ef það er ekki úr einhverri sókn þá er það úr föstu leikatriði. Ég hef alltaf trú en þetta gekk ekki í dag."
Var svissneska liðið eitthvað öðruvísi en þú bjóst við?
„Nei, þær voru nákvæmlega eins og við héldum. Þær voru mikið í löngum boltum og við unnum þær þar. Þær eru með góðan framherja og það kom mér smá á óvart hvað hún er tæknilega góð, og góða sexu, annars kom ekkert á óvart."
Athugasemdir