Coventry 3 - 3 Manchester Utd (2-4 eftir vítakeppni)
0-1 Scott McTominay ('23 )
0-2 Harry Maguire ('45 )
0-3 Bruno Fernandes ('58 )
1-3 Ellis Simms ('71 )
2-3 Callum OHare ('79 )
3-3 Haji Wright ('90 , víti)
0-1 Scott McTominay ('23 )
0-2 Harry Maguire ('45 )
0-3 Bruno Fernandes ('58 )
1-3 Ellis Simms ('71 )
2-3 Callum OHare ('79 )
3-3 Haji Wright ('90 , víti)
Manchester United mun leika til úrslita um enska bikarinn þetta árið en það varð ljóst eftir að liðið vann Coventry City í ótrúlegum leik á Wembley í dag. Coventry kom til baka eftir að hafa lent þremur mörkum undir, en tapaði í vítaspyrnukeppni.
United-menn voru með öll tök á fyrri hálfleiknum. Þetta leit nokkuð þægilega út. Scott McTominay opnaði markareikninginn í leiknum á 23. mínútu.
Diogo Dalot tók gott utanáhlaup hægra megin, kom boltanum fyrir markið á McTominay sem var ekki í erfiðleikum með að gera rest.
Undir lok hálfleiksins skoraði Harry Maguire annað markið. Bruno Fernandes tók hornspyrnuna sem rataði beint á pönnuna á Maguire sem stangaði boltann í netið.
Góð forysta í hálfleik og tókst Fernandes að bæta við hana á 58. mínútu er hann skoraði af stuttu færi eftir smá vandræðagang í teignum.
Þarna voru United-menn komnir í vel ákjósanlega stöðu en á einhvern ótrúlegan hátt tókst liðinu að klúðra hlutunum.
Ellis Simms minnkaði muninn á 71. mínútu er hann setti boltann í nærhornið eftir fyrirgjöf frá hægri. Þetta mark kveikti vonarneista Coventry-manna sem bættu við öðru sjö mínútum síðar.
Heppnin var svolítið með Coventry í öðru markinu en Callum O'Hare átti skot sem fór af varnarmanni, upp í loftið og efst í vinstra hornið. André Onana átti aldrei möguleika.
Dramatíkin var ekki búin. Snemma í uppbótartíma handlék Aaron Wan-Bissaka boltann í eigin teig. Vítaspyrna dæmd og var það Haji Wright sem fékk ábyrgðina og sýndi hann stáltaugar með því að skora af miklu öryggi.
Geggjuð endurkoma hjá Coventry sem kom liðinu í framlengingu.
Snemma í framlengingunni komst Fernandes nálægt þvi að koma United í forystu. Hann lét vaða fyrir utan teig en boltinn hafnaði í slá, niður í grasið og frá markinu.
Á 117. mínútu komst Simms svo nálægt því að skjóta Coventry í úrslit en skot hans hafnaði í slá. Coventry-menn gáfust ekki upp og héldu þeir að endurkoman væri fullkomnuð er Victor Torp kom boltanum í netið á 120. mínútu en markið dæmt af eftir skoðun VAR. United stálheppið!
United-mönnum tókst á endanum að klára dæmið með því að vinna vítaspyrnukeppnina, 4-2. Casemiro klúðraði fyrstu spyrnunni fyrir United, en André Onana varði frá Callum O'Hare áður en Ben Sheaf skaut yfir. Rasmus Höjlund skaut United í úrslit með síðustu spyrnu leiksins og verður því grannaslagur í úrslitum þetta árið er United mætir Manchester City á Wembley.
Vítaspyrnukeppnin:
0-0 Collins ver frá Casemiro
1-0 Haji Wright skorar
1-1 Diogo Dalot skorar
2-1 Victor Torp skorar
2-2 Christian Eriksen skorar
2-2 Onana ver frá O'Hare
2-3 Bruno Fernandes skorar
2-3 Ben Sheaf skýtur yfir
2-4 Rasmus Höjlund skorar
Athugasemdir