Ungverjaland hefur spilað tvo heimaleiki á EM á uppseldum velli í Búdapest.
Á laugardag gerðu Ungverjar jafntefli við heimsmeistara Frakklands og var mikil stemning á Puskas Arena.
Það voru hins vegar ekki allir í góðum gír að því er kemur fram hjá De Telegraaf í Hollandi. Í frétt þeirra segir að ákveðinn hópur stuðningsmanna Ungverja hafi verið með kynþáttafordóma í garð Kylian Mbappe, stjörnu Frakklands. Þeir hafi gert apahljóð og beint því að honum.
Karim Benzema, sem er af alsírskum ættum, var einnig móðgaður að því er segir hjá hollenska fjölmiðlinum.
Það kom einnig fram í síðustu viku að UEFA hefði fengið skýrslu eftir 3-0 sigur Portúgal á Ungverjum. Í skýrslunni kom fram að stuðningsmenn Ungverja hefðu verið með borða á vellinum þar sem þeir lýstu yfir andstöðu sinni við samkynhneigða.
UEFA er sagt vera að íhuga að taka til aðgerða gegn knattspyrnusambandi Ungverjalands.
Athugasemdir