Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 21. júlí 2022 14:13
Innkastið
„Hvert er KR komið þegar þeir sækja gæjann sem komst ekki í lið hjá Fram?“
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Aron Þórður Albertsson.
Aron Þórður Albertsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Talsvert mikið hefur verið rætt og ritað um stöðu KR að undanförnu en liðið er án sigurs í síðustu fimm deildarleikjum og situr í sjöunda sætinu. Á þriðjudaginn gerði liðið jafntefli við Fram.

Rætt var um leikinn og stöðu KR í Innkastinu sem kom inn í gær.

„Þeir byrjuðu með Aron Þórð (Albertsson) og Hall Hansson á einhverri tveggja manna miðju sem gat ekkert," segir Andri Már Eggertsson, fréttamaður á Vísi.

Sænski varnarmaðurinn Pontus Lindgren fær ekki góða dóma fyrir sína frammistöðu.

„Hann var arfaslakur, sérstaklega sóknarlega. Aron Þórður inni á miðjunni á móti sínum gömlu félögum. Hallur Hansson hefur verið þvílík vonbrigði, maður sér samt alveg að það er eitthvað þarna," segir Eysteinn Þorri Björgvinsson.

Eysteinn segist lítið botna í því hvernig leikmannastyrkingarnar hafa verið hjá KR.

„Aron Þórður er settur á sölulista hjá Fram. Hvert er KR komið þegar þeir taka leikmenn sem Fram kastar frá sér. Þeir voru ekki að taka besta gæjann í Fram heldur gæjann sem komst ekki í liðið hjá Fram. Hann byrjar svo leikinn í gær (þriðjudag). Hvar er KR einkennið? Fear factorinn er löngu farinn," segir Eysteinn.

„Með fullri virðingu fyrir Aroni Þórði Albertssyni, flottur fótboltamaður en þetta er KR."

Kjartan Henry Finnbogason hefur talsvert verið á bekknum og kom inn í blálokin gegn Fram.

„Kjartan Henry hlýtur að spyrja sig að því á hvaða ferðalag hann sé kominn sem leikmaður þegar Stefan Ljubicic og Sigurður Bjartur Hallsson eru á undan honum í framherjanum. Hvað þegar Kristján Flóki verður orðinn heill?" segir Andri.

„Kjartan Henry veit það alveg best sjálfur að hann hefur ekki átt frábært tímabil. En hann kemur inn með eitthvað sem mér finnst Stefan Ljubicic og Sigurður Bjartur ekki vera með, það er barátta og hann leiðir með fordæmi hvað varðar einvígi og baráttu," segir Eysteinn.

Í þættinum er talað um að yfirstandandi tímabil sé væntanlega „síðasti dansinn" hjá Beiti Ólafssyni markverði KR.

„Svo finnst mér líka vera að draga allsvakalega af Kristni Jónssyni og Pálmi Rafn og Theodór Elmar eru fyrir mér á seinustu bensíndropunum. Þeir eru bara hægir," segir Eysteinn sem telur að KR-ingar þurfi að byggja upp frá grunni.

„Rúnar Kristinsson talar mikið um að titilinn sé alltaf krafan í Vesturbænum, það þarf að 'folda' þeim hugsunarhætti í smástund og fara að byggja eitthvað til framtíðar."
Innkastið - Miklar hræringar og vesen í Vesturbæ
Athugasemdir
banner
banner
banner