Víkingum fannst halla mikið á dómgæsluna í 1-0 sigri liðsins á Riga í Víkinni en liðið fer ekki áfram í næstu umferð þar sem það tapaði fyrri leiknum, 2-0.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 1 - 0 Riga FC
Danijel Dejan Djuric, leikmaður Víkings, var svekktur með niðurstöðuna í dag og telur Víkingsliðið betra en Riga.
„Mér finnst við vera með öll völd á þessu og þeir fá einhver hálf færi en við vorum betri. Við áttum seinna markið skilið en svona er fótboltinn og maður fær ekki alltaf það sem maður á skilið þannig ég er hund, hundfúll.“
„Fyrsti leikurinn var off-leikur en ef við hefðum spilað svona leik úti í Riga þá hefði hann farið allt öðruvísi. Fyrri leikurinn var það eina sem 'failaði' en við lærum af þessu,“ sagði Danijel við Fótbolta.net.
Danijel vildi fá tvær vítaspyrnur í leiknum. Snemma í síðari hálfleik féll hann í teig Riga en fékk ekkert fyrir það og nokkrum mínútum síðar var hann spjaldaður fyrir leikaraskap en hann skildi lítið í dómgæsluna og fannst þetta hafa verið persónulegt.
„Ég var að horfa á þetta inni. Fyrsta var pjúra víti og ég skil ekki hvernig dómarinn getur ekki dæmt á þetta. Seinna þá fer hann í mig og ef þið skoðið þetta þá fer hann ekki í boltann og bara í mig. Hann dæmir þetta bara af því þetta er ég og þetta er aðeins meira persónulegt en ef Birnir myndi fá þetta eða einhver annar þá væri þetta alltaf víti. Þeir eru örugglega búnir að skoða þetta fyrir leiki og dæma þetta fyrir leikinn.“
„Ef þetta hefði verið Davíð, Ari eða einhver þá er þetta alltaf víti en hann sér mig „Okei, þetta er Daniel þannig ég dæmi ekki“. Þetta er leiðinlegt og ömurlegt,“ sagði Danijel og fannst honum þessi tvö atvik stærri en þegar varnarmaður Riga átti að hafa handleikið boltann.
„Hann fer yfir hann og hendi. Hvort boltinn hafi verið farinn útaf þegar hann fór í hendina en mér fannst vítin tvö sem ég átti að fá miklu meira en þetta hendi. Helvíti svekkjandi.“ sagði hann enn fremur en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir