Félagaskiptaglugginn í flestum stærstu deildum Evrópu lokar í kringum mánaðamótin. Hér er listi yfir íslenska leikmenn sem gætu söðlað um og haldið annað áður en glugginn lokar, flestir spila erlendis nú þegar en einhverjir leikmenn í Bestu hafa vakið athygli.
Jón Dagur Þorsteinsson ( 25) er að byrja leiki hjá Leuven á bekknum og er búist við því að hann færi sig um set fyrir gluggalok. Ítalska Sería A þykir líklegur áfangastaður.
Logi Tómasson (23) hefur átt frábært tímabil hjá Strömsgodset og fylgjast félög í Belgíu og Hollandi með honum. Kortrijk hefur boðið í hann í sumar.
Logi Hrafn Róbertsson (20) er lykilmaður FH og verður samningslaus í lok árs. Fjallað var um tilboð frá Króatíu fyrr í þessum mánuði.
Frederik Schram (29) er orðaður við endurkomu til Danmerkur og þá eru einnig sögur um að KR vilji fá hann.
Jóhann Berg Guðmundsson (33) virðist vera á leið til Sádi-Arabíu. 433 fjallaði um að Jói væri að semja við Al-Orobah fyrr í þessari viku.
Samúel Kári Friðjónsson (28) er án félags sem stendur. Hann er orðaður við Ingolstadt í Þýskalandi og Dinamo Tbilisi í Georgíu.
Júlíus Magnússon (26) er lykilmaður í spútnikliði Fredrikstad í Noregi sem er að gera flotta hluti sem nýliði í efstu deild. Hann ber fyrirliðabandið og er að vekja athygli hjá félögum í stærri deildum.
Hinrik Harðarson (20) hefur átt mjög gott fyrsta tímabil í efstu deild, skorað nokkur mörk og lagt upp. Það er áhugi á honum frá Noregi og Tromsö hefur verið nefnt til sögunnar.
Orri Steinn Óskarsson (19) er byrjunarliðsmaður í stórliði FCK en áhugi annars staðar frá er mikill. Félög frá Þýskalandi, Spáni og Ítalíu hafa verið orðuð við kappann. FCK vill fá allavega 20 milljónir evra fyrir Orra. Hann var síðast orðaður við Real Sociead í dag.
Hólmbert Aron Friðjónsson (31) er líkt og Jón Daði án félags. Hann var orðaður við heimkomu en verður áfram erlendis. Hann er orðaður við félög í Skandinavíu og Belgíu. Hann hefur einnig verið orðaður við áframhaldandi veru í Þýskalandi.
Arnór Ingvi Traustason (31) er lykilmaður í liði Norrköping en vill spila á stærra sviði. Hann hefur verið orðaður við Lech Poznan og líkur á því að hann fari áður en glugginn lokar.
Þórir Jóhann Helgason (23) virðist ekki vera í plönum Lecce og er orðaður við endurkomu til Eintracht Braunschweig í Þýskalandi og AGF í Danmörku.
Hjörtur Hermannsson (29) er sterklega orðaður í burtu frá Pisa. Hann hefur verið orðaður við Pafos á Kýpur sem og önnur félög á Ítalíu.
Mikael Neville Anderson (26) hefur verið orðaður í burtu frá AGF síðustu misseri. Hann hefur verið orðaður við Belgíu og Ítalíu. Hann er algjör lykilmaður hjá AGF sem hefur farið vel af stað á nýju tímabili.
Arnór Sigurðsson (25) á innan við ár eftir af samningi sínum við Blackburn . Hann hefur verið orðaður við PAOK og QPR í sumar.
Valgeir Lunddal Friðriksson (22) á innan við hálft ár eftir af samningi sínum við Häcken. Romano sagði að Valgeir væri búinn að semja við Fortuna Düsseldorf í Þýskalandi fyrir næsta ár en þýska félagið vill fá hann strax til sín.
Daníel Tristan Guðjohnsen (18) vill spila meistaraflokksbolta og vonast til að komast frá Malmö í glugganum. Félög í Danmörku hafa sýnt honum áhuga, Lyngby og Álaborg hafa verið nefnd til sögunnar.
Athugasemdir