Bjarni Guðjónsson, aðstoðarþjálfari KR í Pepsi Max-deildinni, er á bekknum sem leikmaður er liðið mætir Breiðabliki í kvöld. Hann spilaði síðast með liðinu árið 2013 en KR má aðeins notast við leikmenn sem ferðuðust til Tallinn á dögunum.
Smelltu hér til að fara í beina textalýsingu frá leiknum.
Smelltu hér til að fara í beina textalýsingu frá leiknum.
Bjarni, sem er 41 árs, lagði skóna á hilluna árið 2013 eftir afar farsælan feril bæði hérlendis og erlendis. Hann lék með bæði ÍA og KR hér heima og safnaði að sér ófáum titlum.
Hann hætti árið 2013 og ákvað að snúa sér að þjálfun en hélt sér þó við. Hann æfði með KV árið 2017 og gekk frá félagaskiptum þangað en spilaði þó aldrei leik.
Bjarni er aðstoðarþjálfari KR í dag en hann ákvað þó að rífa fram takkaskóna í dag. Hann verður á bekknum gegn Blikum en það þykir þó ólíklegt að hann spili en hann er á bekknum til að fylla í hópinn þar sem KR má aðeins tefla fram leikmönnum sem ferðuðust til Tallinn til að spila gegn Floru í forkeppni Evrópudeildarinnar. Leikmennirnir eru í svokallaðri vinnusóttkví og mátti því KR ekki kalla menn upp úr yngri flokkum.
Jóhannes Kristinn Bjarnason, sonur Bjarna, er einnig á bekknum en hann skoraði eitt mark í 8-1 sigri KR á Vængjum Júpíters í Mjólkurbikarnum í júní.
Leikurinn hefst klukkan 21:15 og fer fram á Kópavogsvelli.
Athugasemdir