Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   þri 21. september 2021 22:09
Alexandra Bía Sumarliðadóttir
Steini Halldórs: Ef við vinnum rest förum við beint á HM
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson stýrði íslenska liðinu í sínum fyrsta opinbera keppnisleik í kvöld.
Þorsteinn Halldórsson stýrði íslenska liðinu í sínum fyrsta opinbera keppnisleik í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland þurfti að sætta sig við tap gegn Hollandi.
Ísland þurfti að sætta sig við tap gegn Hollandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn og aðstoðarmaður hans, Ásmundur Haraldsson, ræða málin.
Þorsteinn og aðstoðarmaður hans, Ásmundur Haraldsson, ræða málin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ef við vinnum rest förum við beint á HM. En það er bara næsti leikur og það þýðir ekkert að velta sér upp úr einhverju langt fram í tímann'
'Ef við vinnum rest förum við beint á HM. En það er bara næsti leikur og það þýðir ekkert að velta sér upp úr einhverju langt fram í tímann'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er sáttastur með að við sýndum hugrekki og þor að fara á fullu í þær. Við vissum að við yrðum aðeins minna með boltann og allt það en við reyndum að halda í hann og vera með hann og þorðum því alveg. Það sem klikkaði var að við féllum aðeins of langt til baka á köflum, fannst við geta haldið línunni aðeins hærra og það er svona helsta í þessum leik sem manni finnst strax eftir leik," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands eftir 0-2 tap gegn Evrópumeisturum Hollands í Laugardalnum í kvöld.

Íslenska liðið kom sér þó nokkrum sinnum í álitlegar stöður fram á við sem þó tókst ekki að nýta.

„Það vantaði svona herslumuninn. Það vantaði oft bara gæði í sendinguna fyrir, ákveða hvert þú ætlar að spila, ekki bara senda fyrir til að senda fyrir, heldur finna mann, finna hlaup sem væri besti möguleikinn fyrir þig og svona einstaka fínpússun á atriðum sem leikmenn hefðu kannski getað gert aðeins betur en heilt yfir var ég sáttur hvað þær voru áræðnar og þorðu og keyrðu á þær þegar við höfðum möguleika á því. Kannski aðeins erfiðara í seinni hálfleik, við fellum aðeins of mikið til baka fannst mér á köflum, í seinni hálfleik sérstaklega. Það var aðeins erfitt fyrir miðsvæðið oft á tímum að vinna, stórt pláss og slitnaði aðeins á milli hjá okkur."

„Mér fannst við alveg sýna ágætis kafla í þessum leik og ég er alls ekki ósáttur við leikinn. Auðvitað vill maður alltaf vinna og allt það, en ég var alveg sáttur við margt sem við vorum að gera og margt sem við vorum að reyna. Við fengum færi og hefðum alveg getað skorað, fengum góða sénsa til að búa til dauðafæri en svona er bara fótboltinn, það er stutt á milli í þessu."

Steini sagðist á blaðamannafundi í gær að það væri eitthvað í byrjunarliðinu sem myndu koma á óvart. Það sem kom mest á óvart í uppstillingu íslenska liðsins var Guðný Árnadóttir í hægri bakverði, en hún er vön að spila sem miðvörður.

„Guðný var allt í lagi sko. Koma ykkur á óvart.. Ég ætlaði nú bara að segja eitthvað bull til að þið hafið eitthvað að skrifa, það var bara til að gera ykkur forvitin, engin dýpri pæling en það sko. En jú Guðný var fín á köflum varnarlega, auðvitað vissi ég alveg að hún væri ekki vön að spila bakvörðinn en ég var svona aðallega að veðja á hraðann á móti Martens. Þannig að ef við værum hátt upp með liðið þá væru það engin vandræði fyrir okkur."

Lestu um leikinn: Ísland 0 -  2 Holland

Ísland gerði tvöfalda skiptingu á 63. mínútu þegar Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir komu inn á. Tveimur mínútum síðar skorar Holland sitt annað mark.

„Auðvitað eru vonbrigði að hafa lent 2-0 undir á þeim tímapunkti en þetta var í raun bara frábært slútt hjá henni. Voðalega lítið fyrir okkur að gera í því þannig lagað. Það er bara partur af fótbolta. Auðvitað eru einhver atvik sem við hefðum viljað sá gerð betur í aðdraganda marksins. Í færslunni þegar hún fær boltann en sum mörk eru náttúrulega bara þannig að maður þarf ekki að skammast sín fyrir að hafa fengið þau á sig."

Amanda Jacobsen Andradóttir kom inn á 90. mínútu leiksins, en mikil umræða hefur verið um Amöndu og hvort hún komi til með að velja að spila fyrir Ísland eða Noreg. Samkvæmt nýjum reglum þurfa leikmenn yngri en 21 árs að spila fleiri en þrjá landsleiki til að staðfesta landslið sitt. En var Steini búinn að ákveða fyrir leik að setja hana inn á? „Nei," sagði Steini einfaldlega.

Steini metur mögulega liðsins í riðlinum vera góða, út frá þessum leik.

„Ef við vinnum rest förum við beint á HM. En það er bara næsti leikur og það þýðir ekkert að velta sér upp úr einhverju langt fram í tímann. Við þurfum bara að vera fókuseruð í að ná góðum leik á móti Tékkum hérna heima næst og svo Kýpur í framhaldi af því. Þetta snýst um að ná í sem flest stig þar og byrja bara á því að gera allt sem við getum til þess að vinna Tékka."

Þetta var fyrsti opinberi keppnisleikur sem Ísland spilar undir stjórn Steina sem segir upplifunina hafa verið fína.

„Steinke hefði átt að hafa minni áhyggjur af spánni sko. En auðvitað nýtur maður þess bara að vera í þessu annars hefði ég aldrei tekið þetta starf ef ég hefði ekki viljað taka þátt í því að vera drullu stressaður og spenntur allt sem fylgir því að vera í þessari stöðu. Þetta er það sem maður elskar í fótbolta. Ég hef reyndar alltaf sagt að um leið og ég er hættur að vera stressaður og spenntur fyrir leiki þá hætti ég að þjálfa, vegna þess að þá er þetta orðið leiðinlegt. Þannig mér finnst þetta bara æðislega gaman að hérna að drepast úr stressi og allur fílingurinn sem fylgir þessu öllu, ég bara elska þetta," sagði Steini léttur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner