Írski þjálfarinn Robbie Keane býst við líkamlega sterkum Blikum í fyrstu umferð Sambandsdeildar Evrópu á morgun en hann ræddi stuttlega um leikinn á blaðamannafundi í gær.
Lestu um leikinn: Maccabi Tel Aviv 3 - 2 Breiðablik
Keane tók við Maccabi Tel Aviv í júní og situr liðið á toppnum í ísraelsku deildinni eftir þrjá leiki.
Írinn er með alla einbeitingu á leiknum gegn Blikum á morgun, sem verður fyrsti leikur þeirra í riðlakeppni í Evrópu.
„Við vitum að þetta verður erfiður leikur. Þeir unnu deildina á síðasta ári og þeir vilja pressa. Í hvert sinn sem ég spilaði með eða á móti íslenskum leikmönnum þá voru þeir líkamlega sterkir og við búumst við því á morgun.“
„Þú verður að vera með gott lið til að komast í riðlakeppni, þannig við erum að undirbúa okkur vel og höfum horft á marga leiki. Við reynum að undirbúa okkur sem best til að við getum unnið leikinn.“
„Hver einasti leikur er erfiður, það er ekki til auðveldur leikur í fótbolta. Þeir vilja spila boltanum og ef ég kem aftur inn á það sem ég sagði, þá verður þú að vera með gott lið til að komast í þessa keppni,“ sagði Keane á blaðamannafundinum.
Ísraelsku blaðamennirnir höfðu takmarkaðan áhuga á að ræða Blika og vildu heldur tala um félagaskiptamarkaðinn og af hverju Keane hafi ekki fengið inn leikmenn á gluggadegi.
Leikur Tel Aviv og Blika fer fram á Bloomfield-leikvanginum í Tel Aviv og hefst klukkan 19:00. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport
Athugasemdir