Rashford, Fonseca, Moyes, Jorginho, Fati, Lenglet, Amorim, Sterling og Lukaku koma við sögu
   mið 21. október 2020 14:00
Magnús Már Einarsson
Yfirmaður Covid göngudeildar Landspítalans vill leyfa æfingar
Runólfur Pálsson.
Runólfur Pálsson.
Mynd: Úr einkasafni
Úr leik í Pepsi Max-deildinni.
Úr leik í Pepsi Max-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr toppslag Vals og Breiðabliks í Pepsi Max-deild kvenna.
Úr toppslag Vals og Breiðabliks í Pepsi Max-deild kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Runólfur Pálsson, læknir og einn af yfirmönnum Covid-göngudeildar Landspítala, telur að reglur í kringum fótbolta á Íslandi séu of harðar í augnablikinu og að opna eigi fyrir æfingar á næstunni. Æfingar hafa verið bannaðar á höfuðborgarsvæðinu undanfarið og verða það áfram næstu tvær vikurnar samkvæmt núgildandi reglugerð.

„Mér finnst það eigi að fara að hyggja að því að byrja á æfingum með ákveðnum reglum. Ég er sammála því að fara sér mjög hægt með áhorfendur þegar keppni fer í gang. Við vitum hvar mesta hættan er á smiti og virðist það ekki tengjast skipulögðu íþróttastarfi. Vandinn er sá að við getum ekki uppfyllt tveggja metra regluna og getum ekki komist hjá snertingu í keppni en á sama tíma vitum við að ef vel er haldið á málum þá er lítið um smit á þessum vettvangi. Það finnst mér gefa tilefni til undanþágu miðað við þá þekkingu sem við höfum. Þangað til eitthvað brestur. Það átti sér stað hópsýking í tengslum við hnefaleika en ég veit ekkert hvernig var staðið að málum þar. Ég veit hvernig staðið er að þessu í fótbolta," sagði Runólfur við Fótbolta.net í dag.

Ekki hópsýkingar í fótbolta
Nokkrir leikmenn hjá félögum á Íslandsmótinu hafa smitast af kórónuveirunni í ár en Runólfur segist ekki hafa heyrt mikið um smit á æfingum eða í keppni.

„Það hefur verið mjög lítið um það. Ég hef reynt að fylgjast töluvert með þessu. Það hefur verið smit í kringum félög enda lifa leikmenn og starfsmenn sínu eðlilega lífi. Ég þekki hins vegar engar hópsýkingar þar sem dreifst hefur út smit innan leikmannahóps. Það finnst mér gefa til kynna að vel sé haldið á málum. Þrátt fyrir að knattspyrna og aðrar keppnisíþróttir með snertingu hafi verið í gangi í þónokkurn tíma," sagði Runólfur en hann telur núverandi æfingabann vera of ströng viðbrögð.

„Ég hef starfað fyrir Víking Reykjavík og KSÍ og er því ekki hlutlaus. Ég hef verið mjög fylgjandi viðbrögðum yfirvalda við faraldrinum. Ég tel að það þurfi að reyna að halda skólastarfi, íþróttastarfi og atvinnulífinu gangandi. Í tengslum við skipulagt íþróttastarf er hægt að hjálpa fólki að temja sér einstaklingsbundnar smitvarnir sem eru svo mikilvægar í þessu langhlaupi sem baráttan við faraldurinn er. Börn og unglingar eru eitt en fullorðnir eru fyrirmyndir og drifkaftur fyrir starf unglinganna. Ég tel að það sé mikill ávinningur í að hafa þetta gangandi."

„Auðvitað er þetta ekki laust við alla áhættu, Það geta myndast hópsýkingar sem geta leitt til smits úti í samfélaginu. Við verðum að nýta þá reynslu sem við höfum og við erum stöðugt að því á öllum sviðum í baráttunni við þennan faraldur. Mér finnst reynslan það góð af skipulögðu íþróttastarfi, ekki síst knattspyrnunni, að mér finnst vera fullt tilefni til að létta á þessu. Mér finnst þetta alltof strangt með æfingar í augnablikinu. Ef maður ber þetta saman við einstaklingsbundnar æfingar í líkamsræktarstöðvum, sem ég vil halda gangandi eins og hægt er, þá er munur á regluverki sem félög fylgja heldur en þegar við treystum eingöngu á einstaklingana sjálfa. Það verður að vera umræða um þetta og skoða þetta mjög vel. Yfirvöld þurfa að taka stórar ákvarðanir og geta ekki rýnt í alla anga samfélagsins í því efni. Umræða um þessi viðfangsefni er því nauðsynleg en hún þarf að vera fagleg."


Smitvarnir góðar í fótbolta
Runólfur bendir á að smitvarnir hafi verið til fyrirmyndar í kringum æfingar og keppni í fótbolta á þessu ári.

„Það er mjög erfitt viðfangsefni að glíma við þennan faraldur og það er verið að taka stórar og um allan heim er verið að taka erfiðar ákvarðanir til að bregðast við stórri bylgju sem er í gangi núna. Heilt yfir finnst mér viðbrögðin hafa verið góð hér á landi. Við þurftum að bregðast við með hörðum aðgerðum í byrjun og svo aftur núna. Við erum smátt samfélag og þolum ekki að farsóttin fari á flug. Talað er um að fáir veikist alvarlega og að þess vegna sé ekki tilefni til harðra viðbragða en ég er algerlega ósammála því. En engu að síður finnst mér aðgerðirnar fullstrangar varðandi skipulagt íþróttastarf með stöðvun æfinga og keppni í langan tíma, sé miðað við aðstæður og reynsluna sem við búum yfir." Sumar þjóðir hafa gengið harðar fram en við í almennum sóttvarnaraðgerðum en samt haldið keppni í íþróttum gangandi með ágætum árangri. Að vísu án áhorfenda í flestum tilvikum en það er óhjákvæmilegt."

„Við höfum verið að læra frá því í fyrstu bylgjunni hvernig við getum haldið veirunni í skefjum og samfélaginu gangandi. Við getum ekki losað okkur við veiruna og það er því mikil áskorun að halda samfélaginu gangandi í langan tíma. Sóttvarnarlæknir og heilbrigðisyfirvöld leituðust við það í kjölfar fyrstu bylgjunnar með ákveðnum aðgerðum þar sem meðal annars var lögð áhersla á einstaklingsbundnar smitvarnir. En því miður gekk það ekki eins vel og vonast var til. Skipulagt starf með ströngu regluverki sem miðar að smitvörnum hefur gengið vel. Þar er knattspyrnan gott dæmi,"
sagði Runólfur Pálsson, yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítala, í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner