Everton ætlar að fá Chukwueze - Man Utd reynir að sannfæra Davies - Arsenal gæti fengið Vlahovic á góðu verði
   mán 21. október 2024 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Orri Sigurður um hegðun Þorra: Þvílíkur ræfill
Húfan var slegin af Ómari.
Húfan var slegin af Ómari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorri Stefán Þorbjörnsson, varnarmaður Fram.
Þorri Stefán Þorbjörnsson, varnarmaður Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru læti í Kórnum í gærkvöldi þegar HK vann 2-1 sigur á Fram í Bestu deild karla.

Það var mikill hiti milli manna í leikslok, Rúnar Kristinsson þjálfari Fram tók ekki í höndina á Ómari Inga Guðmundssyni þjálfara HK og stympingar voru á milli manna á leið til búningsklefa. Þorri Stefán Þorbjörnsson, leikmaður Fram, sló derhúfuna af Ómari Inga.

Orri Sigurður Ómarsson, bróðir Ómars og leikmaður Vals, deilir myndbandinu í dag af því þegar Þorri Stefán slær derhúfuna af höfði Ómars.

„Slá húfu og labba í burtu. Þvílíkur ræfill," skrifar Orri við myndbandið og setur hláturskall með.

Það var rætt um þessi læti í Innkastinu núna áðan en ástæðan fyrir hitanum var sú að þegar HK-ingar vor að reyna að sækja sigurmarkið í lokin neitaði liðið að skila boltanum til baka á Framara sem höfðu sparkað honum út af til að hægt væri að hlúa að Guðmundi Magnússyni. Það sauð upp úr milli bekkjanna og orðaskipti voru.

„Það var leikskólabragur yfir stælunum sem voru að ganga fram og til baka," sagði Elvar Geir Magnússon í Innkastinu.

„Þorri kemur og slær húfuna af Ómari," sagði Valur Gunnarsson og sagði undirritaður þá að það hefði kannski verið aðeins of langt gengið.

„Það er mikil vanvirðing fyrir þjálfara andstæðingana þegar ungur leikmaður í hinu liðinu slær húfuna af þér. Þú ert aðalþjálfari hins liðsins," sagði Elvar.

Valur segist skilja alla sem komu að málinu. „Bæði lið voru alveg brjáluð og ég skildi alla að vera brjálaða. Þetta er stórkostlegt, þetta er íslenski boltinn."


Innkastið - Stjórnlaust hringleikahús
Athugasemdir
banner
banner