mán 21. nóvember 2022 19:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Byrjuðu hræðilega og voru í „tjóninu" en fengu svo inn mann sem sneri genginu við
Maður þarf kannski að skipta um hugarfar og sjá að ef stigin koma í hús þá er markmiðinu náð
Maður þarf kannski að skipta um hugarfar og sjá að ef stigin koma í hús þá er markmiðinu náð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ivan spilar núna í indversku Ofurdeildinni.
Ivan spilar núna í indversku Ofurdeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ef maður horfir til baka þá er ég helvíti ánægður með þetta tímabil
Ef maður horfir til baka þá er ég helvíti ánægður með þetta tímabil
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður FH, ræddi um nýliðið tímabil Keflavíkur í ítarlegu viðtali á dögunum. Keflavík var spáð fallsæti af svo gott sem öllum fyrir mót en liðið var snemma orðið nokkuð öruggt með sæti sitt og stefndi á að enda í efri hluta deildarinnar. Það tókst ekki og endaði liðið í sjöunda sæti.

Hlutirnir litu ekki vel út hjá Keflavík komandi inn í tímabilið, leikmenn voru að glíma við meiðsli og það var skrítið hljóð í þjálfaranum Sigurði Ragnari Eyjólfssyni fyrir mót. Það ýtti ekki undir trú fólks á liðinu.

„Ef maður horfir til baka þá er ég helvíti ánægður með þetta tímabil, sérstaklega ef horft er í að við töpuðum fullt af stigum á seinustu mínútunum. Ef við hefðum tekið tvo leiki í viðbót í fyrstu 22 umferðunum þá erum við að tala um að við hefðum verið í stöðunni sem Valur var í, að mögulega geta barist við KA um Evrópusæti, ef og hefði eins og það er í íþróttum," sagði Sindri.

„Við byrjuðum þetta hræðilega, allir búnir að dæma okkur niður og mögulega við sjálfir. (Frasinn) 'við vissum alveg hvað við gátum' á ekki við, því við vorum alveg í tjóninu. Í fyrsta leik erum við búnir að fá leikmann eins og Adam (Ægi Pálsson) sem náði einni æfingu með okkur og við erum að spila á móti langbesta liði landsins. Það er valtað yfir okkur."

„Síðan gengur allt á afturfótunum, við náum ekki að troða inn fyrsta sigrinum. Á móti ÍBV, þar sem við sækjum fyrsta stigið okkar, þá lendum við í því að fá rautt spjald á 30. mínútu þegar við erum að valta yfir þá, erum 2-0 yfir og eigum í raun að vera 4-0 yfir. Þeir komast yfir en við náðum að jafna undir lokin sem einhvern veginn setur tóninn fyrir okkur upp á framhaldið - að hafa þessa trú. Við förum að vinna leiki í röðum eftir það."


Sindri kemur svo sérstaklega inn á þátt Úkraínumannsins Ivan Kaliuzhnyi sem var á láni hjá Keflavík fyrri hluta tímabilsins.

„Það eru örugglega margir ósammála mér en viðsnúningurinn okkar var Ivan Kaliuzhnyi sem kom til okkar. Hann gjörsamlega breytti leik liðsins. Þegar hann fer þá höldum við áfram að vinna leiki. Hann setur sjálfstraust í liðið, kemur með gæði inn á æfingar, kemur með rosalega ró inn á miðsvæðið og þetta er án efa besti fótboltamaður sem ég hef spilað með."

Sjá einnig:
Ivan á förum frá Keflavík - Kostar milljón dollara

Sindri nefndi töpuð stig undir lok leikja. Var eitthvað atvik sem svíður meira en annað á þessu tímabili?

„Báðir KA leikirnir. Fyrir norðan erum við 2-1 á 60. mínútu, þeir jafna á 89. og vinna í uppbótartíma. Í heimaleiknum erum við 1-0 yfir, ég fæ rautt á 12. mínútu og strákarnir spila frábærlega. Þeir ná að halda þessu fram á 80. mínútu, þá jafna þeir og á 90. fellur botninn undan þessu. Líka Breiðabliks leikurinn heima, Höskuldur skoraði bæði mörkin þeirra í blálokin. Þetta eru leikir sem svíða, þetta er ekki bara bara stig sem fara til spillis, heldur níu stig. Við erum með unninn leik í höndunum í öllum þessum leikjum. Þetta svíður, en maður getur ekki áætlað svoleiðis."

„Ég vil meina að við tökum ekki marga ósanngjarna sigra. Við tökum Leikni úti mögulega ósanngjarnt þegar þeir gefa okkur mark undir lokin. Annars voru ekkert margir sigrar sem við vinnum undir lokin ósanngjarnt."


Sindri er ánægður með eigið tímabil. „Ég hefði viljað halda aðeins oftar hreinu, en við spilum þannig leik, erum dálítið gung-ho fram völlinn, sækjum mikið. Við skorum mikið af mörkum, skorum 56 mörk sem er það þriðja mesta í deildinni. Siggi talaði að um við þyrftum að verjast betur og það komu leikir þar sem við vörðumst frábærlega. Þegar þú ert í liði sem sækir mikið þá mæðir meira á þér og þá lekur inn eitt og eitt mark. Maður þarf kannski að skipta um hugarfar og sjá að ef stigin koma í hús þá er markmiðinu náð," sagði Sindri.

Viðtalið við hann má sjá í heild sinni í spilaranum að neðan.
Sindri talar mjög opinskátt um stöðuna í Keflavík: Tel það vera peningavandamál sem er mjög súrt
Athugasemdir
banner
banner