lau 22. janúar 2022 14:40
Brynjar Ingi Erluson
England: Baráttugleðin dugði ekki til gegn Aston Villa
Aston Villa fagnaði vel og innilega en fengu flöskur í hausinn í staðinn
Aston Villa fagnaði vel og innilega en fengu flöskur í hausinn í staðinn
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Everton 0 - 1 Aston Villa
0-1 Emiliano Buendia ('45 )

Aston Villa lagði Everton að velli, 1-0, á Goodison Park í ensku úrvalsdeildinni í dag en það var aldeilis mikil dramatík í kringum sigurmarkið.

Það var mikil barátta í drengjunum hans Duncan Ferguson. Félagið ákvað að reka Rafael Benítez á dögunum eftir arfaslakan árangur og mætti Ferguson, hetja félagsins, inn.

Hann bað leikmenn sína um að spila fyrir klúbbinn og það var hjarta í þeim þótt liðinu hafi ekki tekist að skapa sér neitt af viti í fyrri hálfleiknum.

Það voru gestirnir sem sköpuðu færin og skilaði það marki í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Lucas Digne tók hornspyrnu og kortlagði hana beint á Emi Buendia sem skoraði á nærstönginni.

Stuðningsmenn Everton létu öllum illum látum í leiknum. Þeir bauluðu á Digne, sem gekk til liðs við Villa frá Everton á dögunum og þegar leikmenn Villa fögnuðu markinu fengu þeir flöskur og aðra aðskotahluti í sig. Skammarleg hegðun hjá þeim bláklæddu.

Everton fór að skapa sér færi síðasta hálftímaleiksins. Tyrone Mings bjargaði á á línu og þá átti Yerry Mina fínasta skalla sem fór rétt framhjá markinu eftir hornspyrnu.

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna en markið kom aldrei. Lokatölur 1-0 fyrir Villa sem eru í 10. sæti með 26 stig en Everton er í 16. sæti með 19 stig.
Athugasemdir
banner
banner