Arsenal ætlar að gera janúartilboð í Douglas Luiz - City og Liverpool hafa líka áhuga - Guehi efstur á óskalista Man Utd
   fös 22. september 2023 21:41
Ívan Guðjón Baldursson
Frakkland: Balogun klúðraði tveimur vítaspyrnum í toppslagnum
Mynd: Getty Images

Mónakó 0 - 1 Nice
0-1 Jeremie Boga ('91)


AS Mónakó tók á móti OGC Nice í fyrsta leik helgarinnar í efstu deild franska boltans og úr varð hörkuleikur sem innihélt nóg af dramatík.

Mónakó keypti Folarin Balogun af Arsenal í sumar og fór framherjinn knái vel af stað hjá nýju félagi en átti svo hrikalegt kvöld í kvöld.

Balogun spilaði sinn fyrsta byrjunarliðsleik með Mónakó og byrjaði á því að klúðra vítaspyrnu á elleftu mínútu. Leikurinn var spennandi þar sem bæði lið fengu góð færi, en Balogun steig aftur á vítapunktinn í upphafi síðari hálfleiks og aftur brást honum bogalistin. 

Balogun var tekinn af velli tólf mínútum síðar en þessi leikur getur ekki hafa verið góður fyrir sjálfstraustið hans.

Staðan var þó enn markalaus en Wissam Ben Yedder, sem kom inn fyrir Balogun, tókst ekki að breyta gangi mála. Það var Fílbeinsstrendingurinn lipri Jeremie Boga sem gerði það, hann skoraði sigurmark í uppbótartíma til að tryggja Nice dýrmæt stig á erfiðum útivelli.

Boga skipti til Nice í sumar frá Atalanta og var að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið.

Lokatölur urðu 0-1 fyrir Nice sem er gríðarlega svekkjandi fyrir Mónakó sem hafði farið vel af stað á nýju tímabili. Mónakó er í öðru sæti eftir tapið, með 11 stig úr 6 leikjum. Nice er á toppinum með 12 stig.

Brest fær óvænt tækifæri til að taka toppsætið þegar liðið tekur á móti Lyon á morgun. 

Frakklandsmeistarar PSG eru í fimmta sæti sem stendur, með átta stig úr fimm umferðum.


Athugasemdir
banner
banner
banner