Það fóru tveir leikir fram í ensku Championship deildinni í kvöld, þar sem Leeds United tók á móti Leicester City í toppslag.
Gestirnir frá Leicester tóku forystuna eftir stundarfjórðung, þegar belgíski miðvörðurinn Wout Faes kom boltanum í netið með skalla eftir hornspyrnu.
Leicester stjórnaði ferðinni út fyrri hálfleikinn og hélt forystunni stærsta hluta síðari hálfleiks, allt þar til á lokakaflanum þegar heimamenn í Leeds skiptu um gír.
Connor Roberts skoraði jöfnunarmark á 80. mínútu og var Archie Gray búinn að taka forystuna fyrir Leeds aðeins þremur mínútum síðar. Roberts var réttur maður á réttum stað og skoraði eftir að boltinn datt fyrir hann innan vítateigs, á meðan Gray átti skot sem breytti um stefnu af varnarmanni og fór í netið.
Það var mikil spenna á lokakaflanum í Leeds, allt þar til á 94. mínútu þegar heimamenn fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateigs. Daniel James tók spyrnuna og þrumaði boltanum í markmannshornið, þar sem danski markvörðurinn Mads Hermansen réði ekki við skotið.
Lokatölur urðu því 3-1 og er Leeds aðeins sex stigum á eftir Leicester í titilbaráttunni. Þetta var níundi sigur Leeds í röð og annar tapleikurinn í röð hjá Leicester, sem á þó 78 stig eftir 34 umferðir.
Preston North End lagði þá Coventry City að velli í innbyrðisviðureign í umspilsbaráttunni.
Preston gerði óvænt út um viðureignina með þremur mörkum í fyrri hálfleik og urðu lokatölur 0-3 þrátt fyrir að leikurinn sjálfur hafi verið nokkuð jafn.
Leeds 3 - 1 Leicester City
0-1 Wout Faes ('15 )
1-1 Connor Roberts ('80 )
2-1 Archie Gray ('83 )
3-1 Daniel James ('94)
Coventry 0 - 3 Preston NE
0-1 Emil Riis Jakobsen ('1 )
0-2 Will Keane ('20 )
0-3 Bobby Thomas ('38 , sjálfsmark)
Athugasemdir