Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
banner
   fös 23. febrúar 2024 10:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stara Pazova
Högg í aðdragandanum - „Hef enga trú á öðru en að hún komi sterk til baka"
Icelandair
Arna Sif meiddist illa.
Arna Sif meiddist illa.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Fanney var frábær í sínum fyrsta landsleik.
Fanney var frábær í sínum fyrsta landsleik.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Ísland mætir á eftir Serbíu í mikilvægum leik í umspili ÞJóðadeildarinnar. Um er að ræða fyrri leik liðanna í tveggja leikja einvígi en leikið er í Serbíu. Svo er spilað á Kópavogsvelli í næstu viku.

Á síðustu dögum hefur landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson þurft að gera tvær breytingar á leikmannahópi sínum vegna meiðsla.

Arna Sif Ásgrímsdóttir varð fyrir því óláni að slíta krossband og spilar ekkert meira á árinu en Natasha Anasi kom inn í hópinn fyrir hana. Svo meiddist markvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir, sem var líkleg til að byrja í markinu í kvöld, og kom Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving inn í hópinn í hennar stað.

Þorsteinn var spurður út í þessar breytingar þegar hann ræddi við Fótbolta.net í Serbíu í gær.

„Þetta kemur upp rétt áður en við mætum hérna. Þetta voru ákveðin högg og fyrir þær líka auðvitað, sérstaklega fyrir Örnu Sif að meiðast svona illa. Það er slæmt fyrir hana og í leiðinni slæmt fyrir okkur. Það er verst fyrir hana að þurfa að takast á við þessi erfiðu meiðsli en hún mun gera það vel," sagði Þorsteinn.

„Ég hef enga trú á öðru en að hún komi sterk til baka. Hjá Fanneyju er þetta ekki það alvarlegt. Hún verður fljót að koma til baka."

Steini segist hafa talað við Örnu Sif kvöldið sem meiðslin komu upp en hún meiddist í leik gegn Fylki í Lengjubikarnum í síðustu viku.

„Ég talaði við hana um kvöldið þegar þetta gerðist. Ég hef ekki hringt í hana eftir að þetta kom ljós, en ég mun heyra í henni fljótlega eftir að við komum heim. Ég ræddi við hana rétt eftir að þetta gerðist og þá var ekki komin endanlega niðurstaða, þó líkurnar hefðu verið miklar á því að þetta væri eins slæmt og þetta svo var."

„Auðvitað er þetta verkefni sem þú þarft að takast á við. Ég hef enga trú á öðru en að hún geri það miðað við þann karakter sem hún hefur. Ég hef trú á því að hún komi sterk til baka og komist aftur á þann stað sem hún var á, áður en hún meiðist."

Hægt er að sjá viðtalið við Steina í spilaranum hér fyrir neðan en Ísland mætir á eftir Serbíu í mikilvægum leik. Sá leikur hefst klukkan 15:00 að íslenskum tíma og er í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Steini: Held að þetta hafi verið eitthvað unglingasvæði hjá þeim
Athugasemdir
banner
banner
banner