Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 23. mars 2023 21:47
Brynjar Ingi Erluson
Afhroð hjá Íslandi
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bosnía/Hersegóvína 3 - 0 Ísland
1-0 Rade Krunic ('14 )
2-0 Rade Krunic ('39 )
3-0 Amar Dedic ('63 )
Lestu um leikinn

Íslenska karlalandsliðið tapaði fyrsta leik sínum í undankeppni Evrópumótsins í kvöld er liðið heimsótti Bosníu og Hersegóvínu en leiknum lauk með 3-0 sigri heimamanna.

Rúnar Alex Rúnarsson var bjargvættur liðsins fyrstu tíu mínúturnar en hann varði strax á 6. mínútu frá Ermin Demerovic og síðan skalla frá Smail Prevljak.

Hann gat hins vegar ekki komið í veg fyrir mark frá Rade Krunic á 14. mínútu. Amar Dedic fór illa með Davíð Kristján Ólafsson og Hákon Arnar Haraldsson áður en hann kom boltanum fyrir markið og barst til Rade Krunic sem sneri baki í markið áður en hann kom honum í netið.

Íslenska liðið átti fínan kafla í fyrri hálfleiknum. Liðið var að skapa sér nokkur hálf færi en vantaði þó mikið upp á. Undir lok fyrri hálfleiks bættu Bosníumenn við öðru og var það svipuð uppskrift og í fyrra markinu. Dedic með fyrirgjöfina og kom Prevljak á ferðinni og reyndi skot, en boltinn af varnarmanni og til Krunic sem gerði annað mark sitt.

Það gekk einhvern vegin ekkert upp. Þegar Ísland var að komast í dauðafæri í byrjun síðari hálfleiks rann Hákon Arnar til eftir mistök frá markverði Bosníu og rann það færi í sandinn.

Bosníumenn gerðu þriðja markið á 63. mínútu. Amar Dedic fékk að leika sér með boltann fyrir utan vítateiginn. Hann týndi boltanum í smástund er hann lék listir sínar en það breytti engu, því hann náði að snúa á Jón Dag Þorsteinsson og Hákon áður en hann lét vaða fyrir utan teig og í netið. Rúnar Alex kom engum vörnum við.

Heimamenn sigldu sigrinum örugglega heim og 3-0 tap gegn Bosníu staðreynd. Átakanlega slök frammistaða og nú þarf heldur betur að svara fyrir þetta tap á sunnudag er Ísland mætir Liechtenstein ytra.
Athugasemdir
banner
banner