
Grindavík/Njarðvík 3 - 2 Grótta
0-1 Lovísa Davíðsdóttir Scheving ('7)
0-2 Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir ('41)
1-2 Danai Kaldaridou ('67)
2-2 Emma Nicole Phillips ('69)
3-2 Tinna Hrönn Einarsdóttir ('89)
0-1 Lovísa Davíðsdóttir Scheving ('7)
0-2 Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir ('41)
1-2 Danai Kaldaridou ('67)
2-2 Emma Nicole Phillips ('69)
3-2 Tinna Hrönn Einarsdóttir ('89)
Lestu um leikinn: Grindavík/Njarðvík 3 - 2 Grótta
Frábærum fótboltaleik var að ljúka í Njarðvík þar sem nýsameinað lið Grindavíkur og Njarðvíkur tók á móti Gróttu í Lengjudeild kvenna.
Gestirnir frá Seltjarnarnesi tóku forystuna snemma leiks þegar Lovísa Davíðsdóttir Scheving var á réttum stað til að skora eftir mikinn atgang innan vítateigs í kjölfar aukaspyrnu.
Það var blautt og hvasst í Njarðvík og léku Seltirningar með vindi í fyrri hálfleik. Það var þó lítið að frétta þar sem heimakonur vörðust vel þar til Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir tvöfaldaði forystu gestanna skömmu fyrir leikhlé.
Hún átti fyrirgjöf frá hægri kanti en María López markvörður sló boltann í eigið net. Skelfileg mistök hjá henni og staðan var 0-2 í leikhlé.
Bæði lið fengu færi til að skora í upphafi síðari hálfleiks en þegar tók að líða á hálfleikinn náðu heimakonur völdum á vellinum með vindinn í bakið. Danai Kaldaridou minnkaði muninn með þrumuskoti utan vítateigs á 67. mínútu, tveimur mínútum áður en Emma Nicole Phillips jafnaði metin.
Emma var fyrst til boltans þar sem hún skoraði eftir frákast eftir að Margréti Rún Stefánsdóttur mistókst að halda boltanum eftir skot heimakvenna.
Staðan var þá orðin jöfn 2-2 og fengu bæði lið tækifæri til að skora á lokakaflanum en það voru heimakonur sem náðu að fullkomna endurkomuna með marki beint úr hornspyrnu. Emma Phillips vann hornspyrnu með frábærri pressu og skoraði Tinna Hrönn Einarsdóttir beint úr spyrnunni. Hún spyrnti upp í vindinn og réði Margrét Rún ekki við boltann. Hún reyndi að slá hann í burtu en tókst ekki svo boltinn endaði í netinu.
Gróttu tókst ekki að ógna jöfnunarmarki af viti í uppbótartíma svo lokatölur urðu 3-2 fyrir Grindavík/Njarðvík. Magnaður endurkomusigur þar á bæ.
Grindavík/Njarðvík er núna með sjö stig eftir fjórar fyrstu umferðir tímabilsins en Grótta situr eftir með þrjú stig.
Athugasemdir